Á morgun fer fram 17. bikarkeppni FRÍ í Kaplakrika í boði Lindex sem er síðasta innanhúss mótið á frjálsíþróttadagatalinu í ár. Það eru sjö kvennalið og sjö karlalið skráð til leiks; Ármann, Breiðablik, FH-A, FH-B, sameiginlegt lið Fjölnis og UFA, HSK/SELFOSS og ÍR.
Íslandsmethafinn í þrístökki, Irma Gunnarsdóttir (FH) verður á meðal keppenda í þrístökki kvenna. Metið hennar í greininni er 13,36 metrar sem hún setti í byrjun febrúar. Methafinn í þrístökki karla, Daníel Ingi Egilsson (FH) stekkur langstökk á morgun og á hann þar best 7,35 metra. Þau eru bæði með yfirburða bestan árangur í sínum greinum og verður spennandi að sjá hvernig þau enda frábæra tímabilið sitt.
Í 60 metra hlaupi karla verður Íslandsmethafinn í greininni, Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) á meðal keppenda. Kolbeinn er búinn að eiga frábært tímabil, búinn að hlaupa sex sinnum undir gamla Íslandsmetinu í ár, bætti einnig eigið met í 200 metra hlaupi innanhúss og var hársbreidd frá því að komast í undanúrslit á HM. Kolbeinn verður einnig á meðal keppenda í 400 metra hlaupi en hann á einnig Íslandsmetið í þeirri grein, 47,59 sek frá árinu 2017. Það verður hörku keppni á milli hans, Sæmundar Ólafssonar (ÍR) og Bjarna Antons Theódórssonar (Fjölnir). Sæmundur er búinn að hlaupa best 49,36 sek í ár og Bjarni 49,84 sek.
Ólympíufarinn og Íslandsmethafinn í kringlukasti, Guðni Valur Guðnason verður á meðal keppenda í kúluvarpi karla. Hann opnaði nýverið tímabilið sitt í kringlukasti á Evrópubikarkastmótinu síðustu helgi og mun á morgun taka síðasta innanhússmótið sitt í kúluvarpi. Guðni er búinn að kasta lengst 18,15 metra í ár en á best 18,90 metra.
Keppnin hefst klukkan 14:00 og á sjá keppendalista, tímaseðil og úrslit hér.
Bikarkeppni 15 ára yngri
9. Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri innanhúss fer einnig fram á laugardag og eru þar skráð til keppni sjö pilta lið og níu stúlkna lið.
Piltalið: Ármann, Breiðablik, FH-A, FH-B, HSK, ÍR, UFA.
Stúlknalið: Ármann, Breiðablik, FH-A, FH-B, HSK A, HSK B, ÍR-A, ÍR-B, UFA.
Keppendalisti, tímaseðil og úrslit má finna hér.