Besti árangur frá upphafi í lóðkasti

Hilmar Örn Jónsson keppti í kastþraut Óla Guðmunds á Selfossi á föstudaginn. Þar keppti hann í lóðkasti með 15 kg lóð. Hilmar kastaði lóðinu 21,87 metra sem er besti árangur Íslendings frá upphafi í greininni.

Ekki er algengt að keppt sé í þessari grein en sleggjukastarar eru oft einnig sterkir í lóðkasti. Metið átti Bergur Ingi Pétursson og var það frá árinu 2010 þegar hann kastaði 21,49 metra. Líkt og Hilmar keppti Bergur Ingi í sleggjukasti og átti hann Íslandsmetið í sleggjukasti þar til að Hilmar tók það af honum árið 2019.