Bergur Ingi og Jón Ásgrímsson með gull í sleggju og spjóti

Nú er fyrsti keppnisdagur á Smáþjóðaleikunum komin vel af stað og okkar keppendur hafa þegar tryggt sér tvenn gullverðlaun á mótinu. Bergur Ingi Pétursson sigraði fyrstu grein dagsins örugglega, kastaði lengst 70,60 metra og rúmlega sex metrum lengra en sá sem sem varð í öðru sæti.
Bergur Ingi bætti leikjametið í greininni um 6,80 metra, en það var í eigu Guðmundar Karlssonar fyrrverandi íslandsmethafa frá árinu 1993.
Þá sigraði Jón Ásgrímsson spjótkastkeppnina, en Jón kastaði lengst 72,28 metra, sem er besti árangur hans í ár. Jón kastaði rúmlega metra lengra en næsti keppandi.
Lokið er keppni í undanúrslitum í 100m hlaupi kvenna og 800m hlaupi karla og kvenna.
Hrafhild Eir Hermóðsdóttir náði öðru sæti í seinni riðli 100m hlaupsins á 12,45 sek. ( 3,6m/s) og komst áfram í úrslit, sem fram fara síðar í dag. Linda Björk Lárusdóttir varð í 5. sæti í fyrri riðli á 12,67 sek. (-1,0m/s) og varð í 9-10. sæti og komst ekki áfram í úrslit.
Arndís Ýr Hafþórsdóttir varð í 6. sæti í 800m hlaupi kvenna, hljóp á 2:21,76 mín og Þorbergur Ingi Jónsson varð í 8. sæti í 800m hlaupi karla á 1:58,15 mín.
 
Sjá nánar: www.cyprus2009.org.cy

FRÍ Author