Bergur Ingi kastaði 73,47 metra í Marugame í gær

Bergur Ingi Pétursson sleggjukastari keppti í gær í Marugame í Japan, en íslensku ólympíufararnir hafa dvalið í æfingabúðum þar ásamt þjálfurum sínum frá 5. ágúst sl.
Samkvæmt óstaðfestum fréttum kastaði Bergur Ingi lengst 73,47 metra á mótinu og sigraði, en öll köst hans voru yfir 70 metra, þaraf voru þrjú köst yfir 73 metra. Beðið er eftir staðfestum úrslitum frá mótinu í Marugame í gær.
Aðstæður voru erfiðar til keppni í Marugame, um 40° hiti og mikill raki, kanski ekki ólíkt því sem búast má við að verði á Ólympíuleikvanginum í Peking á föstudaginn. Íslandsmet Bergs Inga er 74,48 metrar.
 
Bergur Ingi hélt í morgun áleiðist til Peking ásamt Eggerti Bogasyni þjálfara sínum, en Bergur Ingi keppir í undankeppni sleggjukastsins á föstudagsmorgun, á fyrsta degi frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikana.

FRÍ Author