Benjamín og Fjóla Íslandsmeistarar í fjölþrautum

Um helgina fór fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum. Íslandsmeistari í tugþraut varð Benjamín Jóhann Johnsen og sjöþraut varð Fjóla Signý Hannesdóttir Íslandsmeistari.

Í tugþrautinni var spennandi keppni milli Ísaks Óla Traustasonar, UMSS, og Benjamíns Jóhanns Johnsen, ÍR þar sem einungis fimm stig skildu þá að. Ísak Óli hlaut 7007 stig og var að bæta sig og komast í fyrsta skipti yfir sjö þúsund stig. Hann er þar með kominn í góðan hóp tugþrautarkappa en einungis fjórtán aðrir íslenskir karlar hafa náð þeim áfanga. Benjamín fékk 7012 stig en hann á best 7146 stig frá því á Evrópubikar í fjölþrautum fyrr í sumar. Benjamín komst yfir sjö þúsund stig í fyrsta sinn í sumar og var nú um helgina að gera það í þriðja sinn. Benjamín og Ísak sigraðu báðir fjórar greinar um helgina. Benjamín sigraði í hástökki, stangarstökki, spjótkasti og kringlukasti en Ísak sigraði í 100 metra hlaupi, 110 metra grindarhlaupi, langstökki og kúluvarpi.

Í sjöþrautinni var einnig mjótt á milli fyrsta og annars sætis. Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK sigraði með 4529 stig, aðeins tíu stigum meira en María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, sem fékk 4519. María Rún sigraði í fimm greinum og leiddi keppnina framan af þar til í fimmtu grein þrautarinnar, sem er langstökk, þar sem hún gerði allt ógilt og fékk því engin stig fyrir þá grein. Báðar eiga þær best yfir fimm þúsund stig en aðeins tólf íslenskar konur hafa náð því. Stigahæsta grein þeirra beggja var 100 metra grindarhlaup. María Rún hljóp á 14,36 sekúndum sem eru 928 stig og Fjóla Signý á sínum ársbesta tíma 14,55 sekúndum sem gera 902 stig.

Í tugþraut pilta 16-17 ára var Dagur Fannar Einarsson, HSK, sá eini sem kláraði allar greinar og fékk hann 6291 stig sem er persónulegt met. Í fimmtarþraut pilta yngri en fimmtán ára sigraði Markús Birgisson, Breiðablik með 2162 stig.

Dagur Fannar

Í sjöþraut stúlkna 16-17 ára sigraði Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA með 4688 stig sem er persónulegt met með meyjuháhöld og í fimmtarþraut stúlkna 15 ára og yngri sigraði Andrea Björg Hlynsdóttir, UFA með 3298 stig.

Glódís Edda

Öll úrslit má sjá hér