Beggja handa kastmót Breiðabliks

Fyrirkomulag keppninnar verður þannig að keppt verður í beggja handa kúluvarpi, beggja handa kringlukasti og beggja handa spjótkasti í öllum aldursflokkum frá 16-17 ára af báðum kynjum. Keppni í beggja handa köstum fer þannig fram að fyrst fá keppendur þrjú köst með hægri hendi og svo þrjú köst með vinstri hendi. Samanlagður besti árangur með hægri hendi og besti árangur með vinstri hendi er heildarárangur keppandans.
 
Keppendur geta tekið þátt í einstökum greinum eða öllum og verið þá með í stigakeppni. Gefin eru stig út frá þeim skala sem notaður er í fjölþrautarkeppnum. 
 
Í karlaflokki eru Íslandsmetin eftirfarandi:
Kringlukast: 82,75 m (50,13 32,62) Gunnar Huseby 6. júlí 1950
Kúluvarp: 29,13 m (16,62 12,51) Gunnar Huseby 28. júlí 1951
 
Ekkert Íslandsmet er til í spjótkasti því ekki hefur verið keppt í spjótkasti beggja handa eftir að spjótinu var breytt. Íslandsmetið með gamla spjótinu er 101,74 m og er í eigu Valbjarnar Þorlákssonar. Það má því fullyrða að sá sem vinnur spjótkastkeppnina mun einnig setja nýtt Íslandsmet.
 
Engin Íslandsmet í kvennaflokki fundust svo að því má með nokkurri vissu einnig fullyrða að þær konur sem vinna greinarnar þrjár munu setja Íslandsmet í leiðinni. Þá þarf varla að taka það fram að aldursflokkametin fara til hæstbjóðanda.
 
Það er nokkuð ljóst að þetta mun verða stórskemmtilegt mót og því skemmtilegra sem það keppa fleiri. Svo er fátt betra en að keppa á skemmtilegu móti og fara svo heim að horfa á Ólympíuleikana.

FRÍ Author