Norðurlandameistaramótið innanhúss fór fram í Bærum í Noregi í gær. Baldvin Þór Magnússon (UFA) var í 2. sæti í 3000m hlaupi á tímanum 7:56,64 mín. Hans besti tími er 7:47,51 mín. sem er Íslandsmet í greininni. Í dag, 12. febrúar eru tvö ár síðan hann sló þetta met. Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) var í 3. sæti í kúluvarpinu með kast uppá 17,52 m. sem er hennar besti árangur á tímabilinu. Hennar persónulega besti árangur er 17,92 m. sem er Íslandsmet í greininni frá því í fyrra.
Bjarki Rúnar Kristinsson (Breiðablik) varð sjötti í þrístökki með stökk uppá 14,49 m. sem er aðeins 6 cm. frá hans besta árangri. En hann bætti sig á Stórmóti ÍR í janúar og á best 14,55 m.
Irma Gunnarsdóttir (FH) varð sjötta í langstökki með stökk uppá 6,06 m. Hennar besti árangur er 6,45 m. en hún bætti sig einnig á Stórmóti ÍR í janúar.
Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) varð fimmta í 400m hlaupi á tímanum 57,03 sek. Hennar besti tími er 55,52 sek. en hún bætti sig á Reykjavík International Games sem fram fóru um síðustu helgi.
Birta María Haraldsdóttir (FH) varð fimmta í hástökki með stökk uppá 1,77 m. Hennar besti árangur innanhúss er 1,78 m. svo hún var aðeins 1 cm frá innanhúss meti sínu en hennar besti árangur utanhúss er 1,80 m.
Aníta Hinriksdóttir (FH) og Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) kepptu í 1500m hlaupi. Aníta varð fjórða á tímanum 4:18,50 mín. en hennar besti árangur er 4:09,54 sem er Íslandsmet í greininni frá árinu 2018. Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) varð áttunda á nýju persónulegu meti, 4:35,62 mín.