Bætingar á Vormóti HSK

Vormót HSK fór fram á Selfossi í gærkvöldi þar sem margir keppendur voru að keppa á sínu fyrsta móti í sumar og þónokkrir að bæta sig.

Fjölmennt 100 metra hlaup

Mótið byrjaði á 100 metra hlaupi karla þar sem 27 keppendur voru skráðir til keppni. Töluverður mótvindur var í öllum riðlum en besta tímanum náði Daði Lár Jónsson, úr FH þegar hann kom í mark á 11,52 sekúndum. Annar varð Ólíver Máni Samúelsson, Ármanni, á 11,53 sekúndum og þriðji varð Guðmundur Ágúst Thoroddsen, Aftureldingu, 11,62 sekúndum. Þeir fengu allir 2,3 m/s í mótvind. Í 100 metra hlaupi kvenna sigraði Silja Björg Kjartansdóttir, ÍR, á 13,22 sekúndum, önnur varð Vilhelmína Þór Óskarsdóttir, Fjölni, á 13,33 sekúndum og þriðja varð Ásta Margrét Einarsdóttir, ÍR, á 13,54 sekúndum.

Daði Lár Jónsson

Sterk byrjun hjá Dagbjarti

Í spjótkasti var Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR, mættur til keppni. Hann byrjaði tímabilið af krafti með því að kasta 74,67 metra og átti þrjú köst yfir 74 metra. Besti árangur Dagbjarts er 78,30 metrar sem er aldursflokkamet 20-22 ára. Hjá konunum sigraði María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, þegar hún kastaði 46,31 metra.

Bæting hjá Hildigunni

Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, stökk lengst allra og bætti sig í langstökki. Hún stökk 5,66 metra sem er bæting um 4 sentimetra. Hún er því að sýna að hún sé í góðu formi strax í upphafi tímabils og líkleg til afreka í sumar.

Í kúluvarpi var Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR, á meðal keppenda. Hún sigraði 14,58 metra kasti. Í 300 metra hlaupi sigraði Þórdís Eva Steinsdóttir, FH, á 39,40 sekúndum.

300 metra hlaup karla var fjölmennt eins og 100 metra hlaupið en 23 keppendur voru skráðir. Þar sigraði Dagur Fannar Einarsson, Selfossi, á 36,06 sekúndum og annar varð Ólíver Máni Samúelsson, Ármanni, á 36,18 sekúndum. Þeir voru báðirða bæta sinn besta árangur.

Í kringlukasti sigraði Kristín Karlsdóttir, FH, með 49,48 metra kasti. Hún bætti sig á Vormóti Fjölnis í síðustu viku þegar hún kastaði 51,66 metra. Það er fjórði besti árangur íslenskrar konu frá upphafi.

Hér má sjá heildar úrslit mótsins.