Ásdís setti íslandsmet og sigraði í B-hópi á Vetrarkastmótinu

Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni gerði sér lítið fyrir og setti glæsilegt íslandsmet í spjótkasti á 9. Vetrarkastmóti Evrópu í morgun. Ásdís kastaði spjótinu 60,42 metra í þriðju umferð og bætti eigið íslandsmet um 62 sentimetra, en gamla metið var 59,80m frá 20. júlí á sl. ári. Ásdís sigraði örugglega í B-hópnum, en næsti keppandi kastaði 58,37 metra, en alls kepptu átta konur í B-hópnum. Keppni í A-hópi er á dagskrá kl. 14.00 og verður spennandi að sjá í hvaða sæti Ásdís lendir þegar A-hópurinn hefur lokið keppni, en það sá hópur er skipaður sterkari keppendum.
Kastsería Ásdísar var eftirfarandi: Ógilt-54,83-60,42-sl.-56,36-57,78m.
Þetta kast hjá Ásdísi áðan er 5. lengsta kast í heiminum það sem af er þessu ári skv. afrekaskrá IAAF. Sannarlega frábær byrjun á keppnistímabilinu hjá Ásdísi.
 
Bergur Ingi Pétursson keppti einnig í B-hópi í sleggjukastinu áðan og stóð sig mjög vel, kastaði lengst 72,49 metra og varð í öðru sæti á eftir Spánverjanum Javier Cienfuegos sem sigraði, kastaði 73,18 metra, en alls kepptu níu kastarar í B-hópnum áðan, en tíu keppa í A-hópi á eftir kl. 14:30.
Þetta er mjög góð byrjun á keppnistímabilinu hjá Berg Inga og aðeins 1,99 metra frá íslandsmeti hans frá sl. ári.
Kastsería Bergs Inga var eftirfarandi: Ógilt-71,90-71,32-ógilt-ógilt-72,49m.
Svo er bara að bíða og sjá hvaða sæti Bergur Ingi endar í í heildarkeppninni, en ljóst er að það verður ekki neðar en 12. sæti. Bergur varð í 9. sæti á 8. Vetrarkastmótinu á sl. ári í Split, kastaði þá 73,00 metra.
 
Sjá nánar heildarúrslit: www.losrealejos2009.com
 

FRÍ Author