Ásdís og Óðinn Björn fóru í heimsókn á Grundarfjörð

Fyrir hádegi hittu þau yngri og eldri nemendur í Grunnskóla Grundarfjarðar og ræddu við þau um íþróttir, heilbrigðan lífsstíl og margt fleira. Þau töluðu um að íþróttir væru hollar fyrir einstaklinginn, en félagsskapurinn sem fylgir sé ekki síður mikils virði. Þau sögðu líka að það væri mjög gott fyrir krakka á grunnskólaaldri að æfa fleiri íþróttagreinar en eina. Slíkt efldi hreyfiþroska og gagnaðist fólki síðar. Margir af bestu íþróttamönnum Íslands, t.d. í fótbolta og handbolta, hefðu æft frjálsar íþróttir þegar þeir voru börn og unglingar. Ásdís og Óðinn Björn sögðu að mikilvægt væri að setja sér markmið, þ.e. að skrifa niður draumana sína – og útbúa áætlun um hvernig maður vildi ná markmiðunum. Þetta gilti bæði fyrir íþróttir og annað, t.d. skólanám. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og voru dugleg að spyrja gestina, m.a. út í þátttöku þeirra á Ólympíuleikunum, fyrirkomulag æfinga og fleira. 
 
Eftir hádegi leiðbeindu Ásdís og Óðinn Björn krökkunum svo á frjálsíþróttaæfingum allra aldurshópa, bæði innanhúss og á íþróttavellinum – í bliðskaparveðri. 
 
Hér voru á ferðinni frábærir íþróttamenn og góðar fyrirmyndir – og var ekki var annað að sjá og heyra, en að krakkarnir hafi verið ánægðir með heimsóknina og aðstoð íþróttafólksins. 
 
Í lok heimsóknarinnar voru þau leyst út með gjöfum – og af því að alvöru íþróttamenn þurfa alvöru fæði, þá fengu þau fisk frá fiskvinnslum í Grundarfirði. G.Run gaf þeim vænan skammt af þorskflökum, FISK-Seafood sá þeim fyrir fallegri rækju og Soffanías Cecilsson hf. færði þeim saltfisk í gjafapakkningu. Á meðfylgjandi mynd sjáum við þau Ásdísi og Óðin Björn með saltfiskinn – og Kirkjufellið í baksýn. 
 
Heimsókn þeirra var á vegum frjálsíþróttadeildar UMFG í samvinnu við stjórn UMFG, Grunnskóla Grundarfjarðar og HSH.
 
 

FRÍ Author