Ásdís Hjálmsdóttir kastaði 57,30 metra og Björn hljóp á 1:51,29 mín.

Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni keppti á sterku alþjóðlegu móti í Prag á mánudagskvöldið og kastaði 57,30 metra og varð í 6. sæti. Barbora Spotakova frá Tékklandi sigraði með næstlengsta kasti ársins í heiminum á þessu ári, kastaði 68,23 metra, en það er aðeins 17 sm frá besta árangri ársins í heiminum á þessu ári.
Í öðru sæti varð Sunette Viljoen frá Suður Afríku með 60,99 metra. Baráttan um þriðja sætið var jöfn, þriðja sætið var 58,83m, fjórða sætið 57,71m, fimmta sætið var 57,58m og síðan Ásdís með 57,30m.
Ásdís er sem stendur í 14. sæti heimslistans með 61,37 metra.
 
Björn Margeirsson FH keppti í 800m hlaupi á Grand Prix móti í Gautaborg í gærkvöldi og hljóp á 1:51,29 mín og varð í 9. sæti í A-hlaupinu. Samson Ngoepe frá Suður Afríku sigraði á 1:46,47 mín og Svíinn Mattias Claesson varð annar á 1:46,60 mín.
Þetta er besti tími íslensks hlaupara í 800m hlaupi á þessu tímabili. Björn á best 1:49,41 mín frá árinu 2006, sem er þriðji besti árangur íslensks hlaupara frá upphafi.

FRÍ Author