Ásdís með gull á sænska meistaramótinu

Ásdís Hjálmsdóttir sigraði í spjótkasti á sænska meistaramótinu í frjálsíþróttum sem fram fer um helgina. Ásdís kastaði 57,49 metra en sú sem varð önnur kastaði 52,99 metra.

Sigur á þessu móti gefur Ásdísi hundrað auka stig á heimslistanum í spjótkasti. Fyrir Ólympíuleikana 2020 verður farið eftir heimslistanum til þess að ákvarða hverjir fá þátttökurétt. Þannig hefur árangur á sterkum mótum meira vægi. Fyrir mótið var Ásdís í 47. sæti heimlistans en gera má ráð fyrir því að hún færist upp listann eftir helgina. 32 keppendur munu keppa í spjótkasti á Ólympíuleikunum 2020.

Hún er einnig í baráttu um þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Katar í lok september. Þar verður farið eftir ársbesta árangri en þar situr Ásdísí 41. sæti með 59,27 metra en 32 keppendur fá þátttökurétt.

Trausti Stefánsson keppti einnig á sænska meistaramótinu í 400 metra hlaupi. Þar hljóp Trausti á 49,56 sekúndum og varð fjórði í sínum riðli. Hann var aðeins 14/100 úr sekúndu frá því að komast í úrslit. Trausti hefur gefið það út að hann sé að leggja gaddaskóna á hilluna eftir tímabilið eftir glæstan keppnisferil.