Ásdís Hjálmsdóttir keppir í úrslitum á HM í dag

Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni keppir í kvöld í úrslitum á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum utanhúss sem fram fer í London.

Ásdís tryggði sig örugglega inn í úrslit á sunnudaginn þegar hún kastaði 63,06 m í þriðju og síðustu tilraun. Ásdís var níunda inn í úrslit af þeim tólf keppendum sem keppa til úrslita.

Ásdís varð með þessum árangri fyrsti Íslendingurinn í 14 ár sem kemst í úrslit í grein á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum utanhúss. Stangastökkvarinn Þórey Edda Elísdóttir FH keppti til úrslita á HM árið 2003 og hafnaði hún í 6. sæti.

Það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með Ásdísi í kvöld en úrslitakeppnin hefst kl. 18:20 á íslenskum tíma. RÚV sýnir beint frá keppninni í dag og hefst útsending kl. 18:15.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Ásdísi góðs gengis í úrslitunum á eftir!

ÁFRAM ÍSLAND!