Ásdís að bæta 27 ára gamalt Íslandsmet í kúluvarpi

Ásdís Hjálmsdóttir var rétt í þessu að kasta 16,53 metra í kúluvarpi sem er bæting á 27 ára gömlu Íslandsmeti í greininni. Fyrra metið var 16,33 metrar sem Guðbjörg Hanna Gylfadóttir setti í Bandaríkjunum árið 1992. Ásdís var því að bæta metið um 20 sentimetra. Fyrir átti Ásdís best 16,08 metra frá árinu 2016 og var hún í þriðja sæti afrekalistans.

Ásdís setti metið í fyrstu grein í kastþraut út í Svíþjóð þar sem hún býr. Ásdís á einnig Íslandsmetið innanhúss en það er 15,96 metra frá árinu 2017. Ásdís er þekktust fyrir að vera spjótkastari en þar á hún einnig Íslandsmetið og hefur keppt í þeirri grein á þrennum Ólympíuleikum. Hún rétt svo missti af sæti á HM sem fram fer í lok september en hún setur stefnuna á Ólympíuleikana í Tókýó næsta sumar sem hún hefur gefið út að sé sitt síðasta keppnistímabil.