Árni Þorsteinsson ráðinn framkvæmdastjóri FRÍ

Stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands ákvað á stjórnarfundi sínum þann 17. nóvember að ráða Árna Þorsteinsson í starf framkvæmdastjóra FRÍ. Árni lauk meistaragráðu í rekstrarfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku árið 2000, BS í rekstrarfræðum frá Háskólanum á Bifröst 1997 og útskrifaðist sem iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskóla Íslands 1996. Hann hefur góða reynslu úr atvinnulífinu á landi og sjó og lauk m.a. skipstjóraprófi á 2. stigi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1986. Undanfarin ár hefur hann starfað sem fjármálastjóri hjá Námsmatsstofnun. Árni þekkir vel til umhverfis frjálsíþróttaiðkandans, var einn af bestu hástökkvurum landsins á síðustu öld og er í hópi þeirra sem stokkið hafa yfir 2m í hástökki. Stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands fagnar komu Árna í hópinn að nýju og býður hann innilega velkominn til starfa fyrir hreyfinguna. Árni hefur þegar hafið störf á skrifstofu FRÍ að Engjateig 6 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.
 

FRÍ Author