Arnar Péturson Íslandsmeistari í maraþoni

Arnar Pétursson ÍR kórónaði glæsilegt hlaupasumar sitt með því að sigra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í gær. Hann kom í mark á tímanum 2:28:17 klst. sem er persónulegt met hjá honum og jafnframt besti tími sem Íslendingur hefur náð í Reykjavíkurmaraþoninu frá upphafi. Metið átti Sigurður Pétur Sigmundsson en það var 2:28:57 klst. frá árinu 1984.

Í öðru sæti í Íslandsmeistaramótinu var Sigurjón Ernir Sturluson á tímanum 2.50:21 klst. og í því þriðja Páll Ingi Jóhannesson á tímanum 2:57:00 klst.

Ásta Kristín R Parker er Íslandsmeistari kvenna. Hún kom í mark á 3:11:07 klst. Í öðru sæti í Íslandsmeistaramóti kvenna var Anna Guðrún Gunnlaugsdóttir og í því þriðja Fjóla Dröfn Guðmundsdóttir.

Var þetta áttundi Íslandsmeistaratitill Arnars á árinu. Hér fyrir neðan má sjá upptalningu af Íslandsmeistaratitlum Arnars árið 2017:

  1. 3000 m innanhúss. Tími: 8:51,63 mín.
  2. 5 km götuhlaup. Tími: 15:29 mín.
  3. 10 km götuhlaup. Tími: 32:31 mín.
  4. Hálft maraþon. 1:12:39 klst.
  5. 3000 m hindrunarhlaup utanhúss. Tími: 9:43,73 mín.
  6. 5000 m utanhúss. Tími: 15:27,91 mín.
  7. 10.000 m utanhúss. Tími: 32:25,87 mín.
  8. Maraþon. Tími: 2:28:17 klst.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Arnari Péturssyni innilega til hamingju með árangurinn í gær og alla Íslandsmeistaratitlana í sumar!

Til hamingju Arnar!