Ár frá sigri Íslands á Evrópubikar

Á þessum degi fyrir ári síðan átti sér stað hinn magnaði atburður þegar Ísland vann til gullverðlauna í 3. deild Evrópubikarkeppni landsliða sem fram fór í Skopje í Norður Makedóníu. Með sigrinum komst Ísland upp í 2. deildina en aðeins eitt lið fór upp.

Ísland háði mikla baráttu við Serbíu sem fyrifram var með mun sterkara lið á pappír. Hver einn og einasti keppenda íslenska liðsins átti hins vegar frábært mót og fyrir síðustu greinar mótsins sem voru 4×400 metra boðhlaup sat Ísland í öðru sæti skammt frá Serbíu. Kvennasveitin kom önnur í mark en karlasveitin í þriðja. Serbneska karlasveitin sem kom fyrst í mark var hins vegar dæmd úr leik og fékk því engin stig fyrir þá grein. Þar með skaust Ísland þremur stigum fram úr Serbíu og hrepptu gullið. Lokaniðurstaðan var því 430 stig fyrir Íslands og 427 fyrir Serbíu.

Alls unnu íslensku keppendurnir til 25 verðlauna, fimm gull, þrettán silfur og sjö brons. Augnablikið þegar dómsúrskurðurinn var kveðinn upp og ljóst var að Ísland bæri sigur úr býtum má sjá á myndbandinu hér að neðan.

Ísland keppir í 2. deild næsta sumar og mætir þar sterkum þjóðum. Mótið fer fram 19. – 20. júní 2021 en ekki hefur staðsetning verið gefin út. Liðin sem Ísland mætir eru Austurríki, Búlgaría, Króatía, Danmörk, Ungverjaland, Ísrael, Lettland, Litháen, Rússland, Slóvakía og Slóvenía. Lang sterkasta liðið þar er án efa lið Rússlands. Þaðan kemur stór hluti fremsta frjálsíþróttafólks í heiminum og hefur Rússland oftast allra þjóða unnið efstu deild Evrópubikars eða fjórum sinnum af átta skiptum síðan keppnin fór fyrst fram árið 2009. Rússland keppir í 2. deildinni á næsta ári vegna keppnisbanns vegna lyfjamisnotkunar. Þeir fengu ekki að keppa á síðasta móti og hefja aftur keppni í 2. deild.

Hér má sjá myndir af íslensku keppendunum á mótinu og hér eru myndbönd.