Aníta og Guðni Valur frjálsíþróttafólk ársins hjá ÍR

Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir og kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason voru útnefnd frjálsíþróttakona og frjálsíþróttakarl ÍR fyrir árangur sinn árið 2017. Aníta var þar að auki kjörinn íþróttakona ÍR.

Aníta byrjaði árið með  Íslandsmeti í 800 m hlaupi innanhúss á RIG í janúar 2:01,18 og á Evrópumeistaramótinu i Belgrade í mars vann hún til bronsverðlauna í 800 m. Íslandmet í 1500 m hlaupi leit dagsins ljós í byrjun júní er Aníta hljóp á 4:06,43 mín. Aníta keppti á tveimur Demantamótum nokkrum dögum seinna. Hún setti Íslandsmet í Osló er hún hljóp á 2:00,05 mínútum og hljóp hún einnig undir gamal metinu í Stokkhólmi 3 dögum seinna. Hún keppti á EM U23 í júlí og vann til silfurverðlauna í 800 m hlaupi og var einn þriggja keppenda Íslands á Heimsmeistaramótinu í London. Aníta er frábær fyrirmynd yngri iðkenda, vinnusöm, kappsöm og lítillát.

Guðni Valur átti gott ár þegar á heildina er litið þó hann hafi ekki náð aðalmarkmiðinu sem var að ná lágmarki á HM. Guðni glímdi við meiðsli á uppbyggingartímabilinu sem setti strik í reikninginn. Hann náði þó að vinna sig upp úr meiðslunum og keppti hann á yfir 40 mótum á árinu og kastaði lengst 60,94 metra sem gefur 1078 IAAF stig. Stærstu mótin hans á árinu voru EM U23 þar sem hann náði 5. sæti. Hann keppti einnig með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í San Maríno þar sem hann sigraði með góðum árangri og á Evrópubikarkeppni landsliða í Ísrael þar sem hann náði 6. sæti og var með bestan árangur ÍR karla á mótinu.  Guðni Valur æfir af kappi og ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Það þarf ekki að hvetja hann, frekar að letja og passa uppá að hann æfi sig ekki í þrot.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Anítu og Guðna innilega til hamingju.