Aníta með Íslandsmet í 1500 m í Düsseldorf

Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir ÍR keppti í 1500 m hlaupi í gær á sterku móti í Düsseldorf sem kallast, IAAF World Indoor Tour Düsseldorf 2018. Aníta hljóp mjög vel og hafnaði í 5. sæti í hlaupinu á tímanum 4:09,54 mín sem er persónulegt met hjá henni og nýtt Íslandsmet. Aníta átti fyrra metið og var það 4:19,31 mín frá því í janúar 2014. Nú hefur Aníta því náð lágmörkum í 800 m og 1500 m hlaupum fyrir Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum sem fer fram í Birmingham á Englandi dagana 2.-4. mars. Lágmarkið í 1500 m hlaupi er 4:11,00 mín innanhúss og 2:02,00 mín innanhúss í 800 m. Glæsilegur árangur hjá Anítu og verður spennandi að fylgjast með henni á HM.

Hér má sjá myndband af hlaupinu.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Anítu innilega til hamingju með frábæran árangur!