Aníta keppir fyrir Íslands hönd á HM

Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir ÍR verður eini keppandi Íslands á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fer fram í Birmingham í Englandi dagana 1.-4. mars.

Aníta hefur náð lágmörkum í 800 m og 1500 m hlaupum. Aníta náði fyrst lágmarki í 800 m hlaupi á Reykjavíkurleikunum þann 4. febrúar 2017 er hún hljóp á tímanum 2:01,18 mín sem er Íslandsmet í greininni. Lágmarkið er 2:02,00 mín innanhúss.

Aníta náði lágmarki í 1500 m hlaupi þann 6. febrúar sl. á IAAF World Indoor Tour mótinu í Düsseldorf í Þýskalandi. Þá hljóp hún 1500 metrana á tímanum 4:09,54 mín og setti um leið nýtt glæsilegt Íslandsmet í greininni. Lágmarkið  er 4:11,00 mín og var hún því talsvert undir lágmarkinu.

Aníta er í hörkuformi þessa dagana og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með henni á mótinu.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Anítu góðs gengis á HM og sendir henni baráttukveðjur!