Aníta Hinriksdóttir keppir í 1500 m á HM á morgun

Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir ÍR hefur keppni í 1500 m hlaupi á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss á morgun en mótið fer fram í Birmingham á Englandi. Aníta náði lágmarki á HM þann 6. febrúar sl. þegar hún keppti á IAAF World Indoor Tour í Düsseldorf. Aníta hljóp á tímanum 4:09,54 mín í hlaupinu, hafnaði í 5. sæti og setti nýtt glæsilegt Íslandsmet.

Keppni í undanúrslitum í 1500 m hlaupi kvenna hefst kl. 19:42 á morgun á íslenskum tíma. Þrjátíu hlaupakonur frá nítján löndum eru skráðar í 1500 m kvenna og verður keppnin gríðarlega hörð og æsispennandi. Aníta á 22. besta tíma skráðra keppenda og þann 19. besta á tímabilinu.

Rúv 2 sýnir beint frá hlaupinu hennar Anítu á morgun og hefst útsendingin kl. 18:00. Einnig verður sýnt frá mótinu á laugardag og sunnudag á Rúv.

Hér má sjá tímaseðilinn.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Anítu góðs gengis á HM!