Aníta dæmd úr keppni

Aníta Hinriksdóttir keppti í dag í undanúrslitum í 800 metra hlaupi á EM í Berlín. Hlaupið var í tveimur riðlum og kom Aníta sjötta í mark í fyrri riðli á tímanum 2:03,43. Eftir hlaupið var Aníta svo dæmd úr keppni eftir stöðubaráttu við sænsku hlaupakonuna Lovisu Lindh.

Á morgun mun Ásdís Hjálmsdóttir keppa í undankeppni í spjótkasti. Keppt verður í tveimur riðlum og verður Ásdís í fyrri riðli sem hefst klukkan 10:30 á íslenskum tíma. Kasta þarf yfir 60,50 metra til að komast beint inn í úrslit. Hins vegar ef færri en 12 kasta yfir það komast þeir keppendur með lengstu köstin eftir það einnig inn í úrslit. Ásdís hefur kastað lengst 63,43 metra frá því síðasta sumar, í ár hefur hún kastað lengst 60,34 metra.