Á miðvikudaginn var Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) kjörin Íþróttakona Reykjavíkur. En þetta er annað árið í röð sem hún er fær þá nafnbót.
“Ég bjóst alls ekki við að fá titilinn annað árið í röð þar sem hinar stelpurnar sem voru tilnefndar hafa gert alveg frábæra hluti á árinu. Ég ætlaði að reyna við Íslandsmetið í maraþoni í Valencia núna í desember en meiddist í undirbúningnum svo þetta er búið að vera erfiður mánuður. Það var því extra góð tilfinning að fá þennan titil og minna sig á allt það góða sem ég gerði á árinu. Stóru markmiðin 2024 eru meðal annars EM í fjallahlaupum og svo á ég óklárað verk í Valencia í desember.” – Andrea Kolbeinsdóttir
Með tvö Íslandsmet og 7 Íslandsmeistaratitla þetta árið
Í lok mars bætti Andrea 29 ára gamalt Íslandsmet í 5000m hlaupi innanhúss á Góumóti Gaflarans í Kaplakrika. Hún kom í mark á tímanum 16:46,18 mín. en fyrra metið var 17:25,35 mín. sem Fríða Rún Þórðardóttir setti árið 1994. Andrea náði þessum frábæra árangri aðeins þremur tímum eftir að hafa náð Íslandsmeistaratitli í gönguskíðum. Í apríl sigraði hún MÍ í 5km hlaupi á tímanum 16:27mín. Í byrjun júní tók hún þátt í Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum, þar keppti hún í 45km hlaupi og lenti í 35. sæti, stuttu eftir það fór hún með landsliðinu í frjálsum á Evrópubikar og og setti þar Íslandsmet í 3000m hindrunarhlaupi á tímanum 10:08,85 mín. Hún sigraði MÍ í hálfu maraþoni á tímanum 1:17:42 og bætti brautarmet Sigþóru Brynju Kristjánsdóttur frá því á síðasta ári sem var 1:20:43. Hún sigraði Laugarvegshlaupið og bætti brautarmetið annað árið í röð á tímanum 4:22:56 klst. sem er 10 mínútna bæting frá því í fyrra. Á MÍ utanhúss varð hún þrefaldur Íslandsmeistari í 1500m, 3000m hindrun og 5000m. Hún sigraði MÍ í 10km á tímanum 35:37 mín. Reykjavíkurmaraþonið vann hún einnig á tímanum 2:42:11 klst. og var 33 mín á undan næstu konu. 5 mínútna bæting frá því í fyrra.
Ísold Klara Felixdóttir var kjörið íþróttakvár Reykjavíkur 2023, Karate.
Haraldur Franklín Magnússon var kjörinn íþróttakarl ársins 2023, golf.

Ljósmynd/ÍBR