Allir í höllina

Penni

3

min lestur

Deila

Allir í höllina

Um helgina, 26.-27. febrúar fer fram Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum. Mótið fer fram í Laugardalshöll og hefst klukkan 12:00 á laugardeginum á riðlakeppni í 60 metra hlaupi kvenna og stangarstökki karla. Fremsta frjálsíþróttafólk landsins verður samankomið og mun keppa um 24 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum. Tímaseðilinn og úrslit má finna hér.

Við hvetjum alla til þess að mæta í höllina!

Í 60 metra hlaupi kvenna verður spennandi keppni milli tveggja hröðustu kvenna frá upphafi í greininni. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) Íslandsmethafi og Tiana Ósk Whitworth (ÍR) eru þær í frábæru formi og byrjuðu innanhúss tímabilið á glæsilegum tímum. Guðbjörg bætti eigið Íslandsmet á helgarmóti Reykjavíkurfélaganna í byrjun árs og hljóp á 7,43 sek. í sama hlaupi hljóp Tiana Ósk Whitworth á nýju persónulegu meti, 7,45 sek sem er einnig undir gamla meti Guðbjargar. 

Þær taka einnig þátt í 200 metra hlaupi en Guðbjörg á þar Íslandsmetið utanhúss, 23,45 sek en Íslandsmetið Innanhúss á Silja Úlfarsdóttir 23,79 sek. Guðbjörg á best 23,98 innanhúss sem hún hljóp á Reykjavíkurleikunum árið 2020 en hennar ársbesta er 24,05 sek. Tiana Ósk byrjaði tímabilið á hennar hraðasta ársbesta tíma í 200 metra hlaupi, 24,39 en hún á best 24,08 innanhúss. Úrslita hlaupið í 60 metrunum hefjast klukkan 14:00 á laugardaginn og 200 metra hlaupið klukkan 12:40 á sunnudaginn.

Bronsverðlaunahafinn í 800 metra hlaupi á EM innanhúss 2017, Aníta Hinriksdóttir (FH) verður á meðal keppenda um helgina. Aníta hefur verið að glíma við erfið meiðsli undanfarin ár en er að koma til baka og verður gaman að fá hana aftur á Meistaramót Íslands. Aníta keppir í 800 og 1500 metra hlaupi en hún á Íslandsmetið í báðum greinunum bæði innanhúss og utanhúss. 1500 metra hlaupið hefst klukkan 13:45 á laugardeginum og 800 metra hlaupið klukkan 12:10 á sunnudaginn.

Ólympíufarinn og Íslandsmethafinn í kringlukasti, Guðni Valur Guðnason (ÍR) keppir í kúluvarpi. Hann bætti sinn persónulega árangur í kúluvarpi á Reykjavíkurleikunum í ár og varpaði kúlunni 18,84 metra. Kúluvarpið hefst klukkan 14:15 á laugardaginn. 

Hástökkvarinn efnilegi Kristján Viggó Sigfinnsson (Á) er á meðal keppenda og stekkur hann klukkan 13:30 á sunnudaginn. Hann byrjaði tímabilið glæsilega með stökk upp á 2.15 metra og náði strax lágmarki á HM U20 sem fram fer í Cali í Kólómbíu í sumar. Hann á best 2,18 metra og er búinn að eiga góðar tilraunir við 2,20 metra. 

Í hástökki kvenna er Eva María Baldursdóttir (HSK) á meðal keppenda en hún var ein af sex Íslendingum sem kepptu á Norðurlandameistaramótinu í byrjun febrúar. Hún lenti þar í fjórða sæti og jafnaði sinn ársbesta árangur með stökk upp á 1,76 metra. Hún á best 1,81 en sú hæð er einnig lágmarkið á HM U20 og verður því spennandi að sjá hvort hún nái því um helgina. Hástökkið hefst klukkan 13:00 á laugardaginn.

Í 60 metra hlaupi karla er sigurvegarinn á Reykjavíkurleikunum, Birgir Jóhannes Jónsson (ÍR), skráður til leiks en hann er búinn að hlaupa hraðast allra á Íslandi í ár, 7,02 sek. sem er hans persónulegi besti árangur. Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH)  er einnig skráður til leiks og er hann búinn að hlaupa á 7,09 sek. hraðast í ár en hann á best 6,83 sek. Hann keppir einnig í 200 metra hlaupi en hann á Íslandsmetið í þeirri grein bæði innan- og utanhúss. Úrslitin í 60 metra hlaupi hefjast klukkan 14:10 á laugardaginn og 200 metra hlaupið klukkan 13:20 á sunnudaginn.

Penni

3

min lestur

Deila

Allir í höllina

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit