Aldursflokkamet og EM U23 lágmark á Vormóti ÍR

Vormót ÍR fór fram á Laugardalsvellinum í gær og var haldið í 77. skipti. Keppt var í 23 greinum og voru 120 keppendur skráðir á mótið. Flottur árangur náðist í mörgum greinum og voru margir að bæta sig.

Andrea Kolbeinsdóttir, ÍR, hljóp undir lágmarkinu á EM U23 í 10.000 metra hlaupi þegar hún kom í mark á 35:25,38 mínútum. Það er töluvert undir lágmarkinu sem er 36:15,00 mínútur. Fyrir hafði Andrea einnig náð lágmarki á mótið í 3.000 metra hindrunarhlaupi.

Með þessum tíma var Andrea að fara upp í þriðja sæti afrekalistans í greininni en aðeins Martha Ernsdóttir og Ragnheiður Ólafsdóttir hafa hlaupið vegalengdina á skemmri tíma. Andrea var einnig að setja nýtt aldursflokkamet í flokki 20-22 ára.

Andrea Kolbeinsdóttir

Valdimar Hjalti Erlendsson, FH, setti nýtt aldursflokkamet 18-19 ára í kringlukasti þegar hann kastaði 57,54 metra. Fyrra metið átti hann sjálfur og var það 56,96 metrar. Valdimar Hjalti mun keppa á sterku alþjóðlegu ungmennamóti í Þýskalandi um helgina ásamt sjö öðrum íslenskum ungmennum. Valdimar Hjalti hefur náð lágmarki á EM U20 sem fram fer í Svíþjóð um miðjan júlí

Valdimar Hjalti Erlendsson

Í hástökki voru það fulltrúar ungu kynslóðarinnar sem sigruðu bæði í karla- og kvennaflokki. Kristján Viggó Sigfinnsson, Ármanni, sigraði með því að stökkva yfir 1,91 metra. Best á hann 2,02 metra frá því í fyrra. Eva María Baldursdóttir, Selfossi, stökk 1,70 metra og tók fyrsta sætið. Best á hún 1,75 metra frá því í byrjun júní. Þau eru bæði fædd árið 2003 og því á sextánda aldursári.

Eva María Baldursdóttir

Öll úrslit mótsins má sjá hér.