Aldursflokkamet á Vormóti HSK

Vormót HSK fór fram í gær þar sem margir voru að keppa á sínu fyrsta móti í sumar. Mikið var um persónulegar bætingar og eitt aldursflokkamet féll.

Hinrik Snær Steinsson, FH bætti aldurflokkametið í flokki pilta 18-19 ára í 300 metra hlaupi. Hinrik hljóp á 34,65 sekúndum og kom fyrstur í mark. Fyrra metið var 34,7 sekúndur sem Haukur Clausen átti og var það frá árinu 1947.

Í 100 metra hlaupi kvenna hlupu bæði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR og Tiana Ósk Whitworth, ÍR undir 12 sekúndum. Guðbjörg kom fyrst í mark á 11,85 sekúndum (-0,1) og Tiana varð rétt á eftir á 11,91 sekúndu (-0,1). Þær eiga báðar best 11,68 sekúndur.

Í sleggjukasti kvenna kastaði nýkrýndi Íslandsmethafin Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR 58,51 metra. Íslandsmet hennar frá því í síðustu viku er 62,16 metrar.

Fjölþrautakappinn Ísak Óli Traustason, UMSS bætti sig í 110 metra grindarhlaupi þegar hann hljóp á 14,92 sekúndum (+0,7) og í kringlukasti með 39,29 metra kast.

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason, ÍR er að nálgast sitt besta form eftir veikindi í vetur. Hann kastaði kringlunni 61,45 metra sem er hans besti árangur á þessi ári. Hinn ungi og efni Valdimar Hjalti Erlendsson var einnig á meðal keppenda og kastaði hann 47,73 metra.

Fjölmennasta grein mótsins var 100 metra hlaup karla. Þar voru 28 keppendur. Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS, sigraði á 11,07 sekúndum (+0,7), annar varð Guðmundur Ágúst Thoroddsen, Aftureldingu, á 11,21 sekúndu (+0,7) og í þriðja sæti varð Arnaldur Þór Guðmundsson, FH, á 11,32 sekúndum (+0,7).

Öll úrslit mótsins má sjá hér