Akureyrarmót UFA

Akureyrarmót UFA fór fram um helgina þar sem keppt var í mörgum greinum og mörgum aldursflokkum.

Í 100 metra hlaupi karla sigraði Jóhann Björn Sigurbjörnsson á tímanum 10,71 sek og Ívar Kristinn Jasonarson varð annar á tímanum 10,88 sek. Tíminn var hins vegar ekki löglegur þar sem vindurinn var +2,8 m/s. Þeir lentu einnig í tveimur efstu sætunum í 100 metrum á Meistaramóti Íslands fyrir rúmri viku. Jóhann sigraði einnig 200 metra hlaupið á tímanum 22,10 sek.

Í 100 metra hlaupi kvenna sigraði Hafdís Sigurðardóttir þegar hún hljóp á sínum ársbesta tíma, 11,97 sek. Andrea Torfadóttir varð önnur á tímanum 12,22 sek. Andrea hefur bætt sig vel í sumar, fyrir sumarið átti hún best 12,27 sek en hennar besti löglegi tími í sumar er 12,14 í hlaupi sem fór einnig fram á Akureyri. Hafdís kann greinilega vel við sig á heimavelli því í langstökki stökk hún sitt lengsta stökk á árinu, 6,38 metra. Hún stökk einnig 6,39 metra en í því stökki var vindurinn yfir leyfilegum mörkum.

Í kúluvarpi kvenna sigraði Heiðrún Sigurðardóttir á nýju persónulegu meti, 12,42 metrum. Í kringlukasti karla voru einnig persónulegar bætingar. Gunnar Eyjólfsson og Ísak Óli Traustason bættu sig báðir. Gunnar sigraði þegar hann kastaði 36,13 metra, Ísak kastaði lengst 35,96 metra.