Afreksstefna FRÍ

Afreksstefna FRÍ 2017-2024

Afreksstefnu Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) er ætlað að varða leið sambandsins í afreksmálum til átta ára. Stefnan er útfærð nánar í aðgerðaáætlun þar sem lýst er núverandi stöðu og væntum aðgerðum.

Afrekssýn FRÍ 2017-2024

Afreksstarf FRÍ miðar að því að Ísland eigi hverju sinni frjálsíþróttafólk er skipi sér á bekk með þeim fremstu í íþróttinni hverju sinni. Með þeim hætti sem þessi stefna greinir, vinnur FRÍ að því að eftirfarandi árangur náist á gildistíma stefnunnar:

 1. Árlega nái a.m.k. tveir frjálsíþróttamenn árangri sem skipar þeim meðal 50 bestu í greininni á heimslista Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF) eða 25 bestu á Evrópulista Evrópska frjálsíþróttasambandsins (EAA).
 2. Ísland eigi a.m.k. 4 keppendur á EM utanhúss eða 2 keppendur á EM innanhúss á hverjum tíma.
 3. Ísland eigi keppanda sem vinnur til verðlauna á EM á tímabilinu.
 4. Ísland eigi a.m.k. tvo keppendur á hverjum ÓL og HM á tímabilinu.
 5. Ísland eigi a.m.k. einn keppanda í úrslitakeppni á ÓL 2020 eða 2024 sem og á HM 2021 eða

  2023.

Hornsteinar

Eftirfarandi hópar hafa verið skilgreindir sem hornsteinar afreksstefnu FRÍ:

a)  Framúrskarandi íþróttafólk

Framúrskarandi íþróttafólk eru þeir einstaklingar sem skipa sér með árangri sínum í fremstu röð íþróttafólks í heiminum. Þeir sem ná í úrslitakeppni á stórmótum (ÓL/HM/EM) og enda meðal 12 fremstu eða ná að vera meðal 24 fremstu á heimslista IAAF eða 12 fremstu á Evrópulista EAA.

b)  Afreksfólk FRÍ

Til afreksfólks FRÍ teljast þeir einstaklingar sem náð hafa EAA/IAAF lágmarki til keppni á stórmóti, þ.e. EM, HM, ÓL í fullorðinsflokki og/eða þau sem við lok keppnisárs standa í 50. sæti eða hærra á árslista IAAF eða 25. sæti eða hærra á árslista EAA.

c)  Afreksefni FRÍ

Afreksefni FRÍ eru þeir einstaklingar sem náð hafa EAA/IAAF lágmarki til keppni á stórmóti ungmenna – EM U23, U20, U18 og HM U20, U18.

d)  Landslið FRÍ

Landslið FRÍ (landslið og unglingalandslið) sem valið er í alþjóðleg landsliðsverkefni og skipað er fremsta frjálsíþróttafólki landsins hverju sinni.

e)  Hæfileikamótun ungmenna

Hæfileikamótun ungmenna fer fram í Stórmótahópi FRÍ og Úrvalshópi FRÍ.

 

Markmið

Til að ofangreind afrekssýn verði að veruleika setur FRÍ eftirfarandi markmið með afreksstarfi sínu:

 1. að búa afreksíþróttafólki og afreksefnum í frjálsíþróttum faglega umgjörð, skapa þeim krefjandi verkefni og hjálpa þeim að öðru leyti til að ná markmiðum sínum
 2. að hafa á að skipa hæfu og færu fólki sem að afreksstarfinu kemur
 3. að stuðla að bættri aðstöðu frjálsíþróttafólks innan- og utanhúss
 4. að treysta stoðkerfi og bakland afreksíþrótta með gagnsæi og fagmennsku að leiðarljósi

Framfylgd og kynning

Stjórn FRÍ, framkvæmda- og íþróttastjóri FRÍ bera höfuðábyrgð á afreksstefnu FRÍ. Þau vinna að framgangi hennar í nánu samstarfi við íþrótta- og afreksnefnd (ÍÞA) og unglinganefnd, aðildarfélög FRÍ, þjálfara þeirra, íþróttafólk og aðstandendur.

Afreksstefnan er birt á heimasíðu FRÍ og uppfærð þar ef breytingar verða.

Gildistími og endurskoðun

Afreksstefna FRÍ er mótuð og sett til átta ára í senn og endurskoðuð á fjögurra ára fresti eða örar. Aðgerðaáætlun er unnin af FRÍ til fjögurra ára í senn og endurskoðuð ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti.

Í aðdraganda hvers Frjálsíþróttaþings skal stefna og aðgerðaáætlunin rædd, framgangur metinn og breytingar eða tillögur að úrbótum mótaðar.

Afreksstefnan er á hverjum tíma aðgengileg frjálsíþróttahreyfingunni og hún kynnt vel fyrir afrekssviði ÍSÍ.

Útgáfur og saga

Útgáfa 1 – júní 2016
Drög samþykkt á FRÍ þingi 1. maí 2016. Unnið í nefnd, birt og skilað til afrekssviðs ÍSÍ sumar 2016

Útgáfa 2 – júní 2017
Endurrituð og endurskoðuð útgáfa þar sem horft er til endurskoðaðrar stefnu ÍSÍ
og reglugerðar Afrekssjóðs ÍSÍ. Drög kynnt á Formannafundi FRÍ 1. júní 2017 og stefnan og aðgerðaráætlun samþykkt af stjórn

Aðgerðaráætlun FRÍ í afreksmálum 2017-2020

Hér á eftir fer aðgerðaráætlun FRÍ í afreksmálum sambandsins 2017-2020. Aðgerðaráætluninni er ætlað að varpa ljósi á núverandi forsendur og þær aðgerðir sem FRÍ hyggst ráðast í á tímabilinu. Aðgerðir sem FRÍ telur best auka líkur á því að afrekssýn FRÍ til 8 ára geti orðið að veruleika.

I. Skilgreining afreksverkefna FRÍ

FRÍ hefur skilgreint afreksverkefni með eftirfarandi hætti:

Stórmótaverkefni: EM, HM, ÓL.
Stórmótaverkefni ungmenna: EM U23, U20 og U18, HM U20 og U18.
Landsliðsverkefni: Evrópukeppni landsliða, Smáþjóðaleikar, Smáþjóðameistaramót

(AASSE leikar), NM fullorðinna innanhúss.

Landsliðsverkefni ungmenna: NM U23, NM U20, NM í fjölþrautum, Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar.

II. Forsendur og aðgerðir

Til að afrekssýn FRÍ megi verða að veruleika hafa verið skilgreind fjögur meginmarkmið sem afreksstarf FRÍ byggir á. Markmiðin snúa að eftirfarandi þáttum:

A. Íþróttafólki
B. Þjálfurum og umgjörð
C. Aðstöðumálum
D. Stjórnskipan og stoðkerfi

Hér er að finna annars vegar lýsingu á forsendum og hins vegar skilgreiningu á aðgerðum sem FRÍ mun ráðast í, til að tryggja að markmiðunum verði náð og þar með að afrekssýn FRÍ verði að veruleika. Sjá nánar fjallað um einstaka þætti að neðan.

A – Íþróttafólkið

Markmið:
Að búa afreksíþróttafólki og afreksefnum í frjálsíþróttum faglega umgjörð, skapa þeim krefjandi verkefni og bæta möguleika þeirra að öðru leyti til að ná markmiðum sínum, vinnur FRÍ að eftirfarandi:

A1. Einstaklingar – Framúrskarandi íþróttafólk, afreksfólk og afreksefni

Forsendur

Gengið er útfrá því að íþróttafólkið sem afreksstefnan nær til sé meðvitað um hlutverk sitt og skyldur. Það sé góð fyrirmynd í alla staði, utan vallar sem innan og tilbúið að axla þá ábyrgð að vera fulltrúar FRÍ. Íþróttafólkið æfir undir stjórn félagsþjálfara aðildarfélaga, eigin þjálfara innan eða utan lands. Afreksíþróttafólkið setur sér skýr markmið og er tilbúið að leggja fram áætlun um hvernig þeim skuli náð.

Aðgerðir

 • FRÍ upplýsir tímanlega og með skýrum hætti um þau viðmið, reglur og fyrirkomulag sem að afrekum, mótum og öðrum verkefnum snúa. FRÍ kynnir fyrir íþróttafólkinu þær kröfur og ábyrgð sem í því felst að vera fulltrúi í verkefnum á vegum FRÍ.
 • FRÍ gerir kröfur um að afreksíþróttafólkið setji sér markmið og sé tilbúið að leggja fram áætlun um hvernig þeim skuli náð. Íþróttastjóri og ÍÞA/unglinganefnd geta kallað eftir áætlun og markmiðssetningu ef þurfa þykir og aðstoða einnig sé þess óskað.
 • FRÍ hefur frumkvæði að því að sett er upp sérstakt einstaklingsmiðað teymi fyrir alla þá sem eru í hópi afreksfólks FRÍ. Þessi teymi samanstanda af fulltrúa FRÍ, íþróttamanninum sjálfum, fulltrúa félags, fulltrúa skóla, þar sem við á og aðstandendum.
 • FRÍ gerir samninga við framúrskarandi og afreksfólk FRÍ í samráði við teymi viðkomandi er snýr að skuldbindingum beggja aðila.

A2. Lið – Landslið og unglingalandslið Íslands

Forsendur

Reglulega taka landslið og unglingalandslið Íslands í frjálsíþróttum þátt í alþjóðlegum verkefnum. Liðin eru skipuð einstaklingum sem uppfylla skilyrði sem sett hafa verið fram í viðmiðunarreglum nefndar. Í starfi unglingalandsliðs felst mótun landsliðsfólks framtíðarinnar.
Gengið er útfrá því að allir sem koma að verkefnum landsliðanna stefni í sömu átt og starfi af fagmennsku og heiðarleika.

ÍÞA er stjórn FRÍ til ráðgjafar varðandi val á landsliði, þjálfurum og fararstjórum. Á sama hátt er unglinganefnd FRÍ stjórninni til ráðgjafar um val á unglingalandsliði, þjálfurum þess og fararstjórum.

Aðgerðir

 • FRÍ leitast við að tryggja faglegan og markvissan undirbúning fyrir öll verkefni með upplýsingum um fyrirkomulag ferða og keppni, skilgreind markmið verkefnis, skyldur landsliðsfólks ofl.
 • Í nóvember ár hvert birta ÍÞA og unglinganefnd viðmiðunarreglur um val á mót næsta árs þar sem fram koma gildandi lágmörk IAAF/EAA (og önnur gildandi lágmörk) og þær aðferðir sem notaðar eru við val á hvert mót ásamt upplýsingum um mikilvægar dagsetningar.
 • Val á liðunum skal vera eins gagnsætt og hlutlægt og frekast er unnt.
 • Verkefni á tímabilinu verði skipulögð til langs tíma með það að markmiði að sem flestir íþróttamenn nái að stíga upp þrepin úr hæfileikamótum, verði afreksefni, afreksfólk og framúrskarandi íþróttafólk.

A3. Mótunarstarf – Hæfileikamótun ungmenna

Forsendur

Hæfileikamótun ungmenna fer fram í Stórmótahópi FRÍ og Úrvalshópi FRÍ.

Úrvalshóp FRÍ skipar frjálsíþróttafólk, 15-19 ára, sem náð hefur árangursviðmiði Unglinganefndar FRÍ. Úrvalshópi FRÍ er ætlað að auka breiddina í frjálsíþróttum meðal ungmenna með því að skapa umhverfi þar sem unglingarnir fá ekki einungis tækifæri til að þróast sem íþróttafólk heldur einnig tækifæri til að eignast vini, skapa sér heilbrigðan lífstíl og læra að sigrast á sjálfum sér með því að setja sér raunhæf markmið og plön. Markmið hópsins er að sporna gegn brottfalli unglinga úr íþróttinni með því að gefa þeim eitthvað skemmtilegt að keppa að og skapa vettvang fyrir frjálsíþróttaunglinga landsins að kynnast utan keppni og mynda vináttu og tengsl óháð íþróttafélagi. Næsta markmið á eftir Úrvalshópi FRÍ er að komast í Stórmótahóp FRÍ þar sem lágmörk eru strangari.

Stórmótahópur FRÍ samanstendur af ungmennum, 16-22 ára, sem hafa náð lágmörkum sem Unglinganefnd FRÍ hefur sett. Lágmörkin gilda fyrir hvern aldurshóp og eru í samræmi við þau lágmörk sem EAA og IAAF hafa gefið út fyrir U23, U20 og U18. Í hópnum eru því ungmenni sem hafa náð eða eru líkleg til að ná lágmörkum fyrir stórmót sem haldin eru á vegum EAA og IAAF.

Hópurinn er í stöðugri endurskoðun. Einstaklingur sem nær lágmörkum í hópinn skal, um leið og lágmarki er náð, tekinn í verkefni hópsins. Markmið hópsins er að styðja við afreksfólk framtíðarinnar sem er að stíga sín fyrstu skref á alþjóðlegum mótum ungmenna.

Aðgerðir

 • Unglinganefnd FRÍ skilgreinir árangursviðmið fyrir Úrvals- og Stórmótahópa FRÍ og birtir á heimasíðu FRÍ og uppfærir reglulega.
 • FRÍ og unglinganefnd sjá til þess að Úrvalshópur (15-19 ára) hittist við æfingar 1-2 á ári. Þar sem hóparnir fá fræðslu, verkefni og hvatningu við hæfi. Undirbúningur og framkvæmd er í höndum unglinganefndar framan af tímabilinu. Sjá nánar í D-lið.
 • Ráðinn verður verkefnastjóri unglingamála sem verður ábyrgur fyrir framkvæmd verkefnanna.
 • Þátttakendum í Stórmótahópi og þjálfurum þeirra verður boðið upp á ítarlegri fræðslu m.a. til að móta andlegan styrk og fyrirbyggja meiðsli.

B – Þjálfarar og umgjörð

Markmið:
Í því skyni að hafa á að skipa hæfu fagfólki sem að afreksstarfinu kemur, vinnur FRÍ að eftirfarandi:

Forsendur

Aðildarfélög FRÍ sinna að mestu því starfi sem fram fer við uppbyggingu íþróttafólks frá unga aldri. Þau sjá m.a. um ráðningu menntaðra þjálfara, skipulag þjálfunar, undirbúning fyrir þátttöku í mótum og félagslega þætti starfsins. Félögin skapa afreksfólki og afreksefnum sínum faglega umgjörð til að styrkja þau enn frekar í æfingum og afrekum sem og að móta heilsteypta einstaklinga. Félögin vinna náið með stjórn FRÍ og framkvæmda- og íþróttastjóra FRÍ varðandi kynningu og upplýsingar er snúa að landsliðsmálum og afreksstarfinu almennt.

Frjálsíþróttaþjálfarar eru nauðsynlegur hlekkur í afreksstarfinu. Þjálfarar og íþróttafólk setja sér langtímamarkmið með velferð íþróttafólksins að leiðarljósi. Gert er ráð fyrir að þjálfarar leggi metnað sinn í að efla þekkingu sína á sviði þjálfunar og uppbyggingar afreka, hafi frumkvæði og frjóa hugsun við að þróa og móta nýjar leiðir.

Afreksþjálfarar starfa í dag flestir í hlutastarfi, með annarri vinnu innan félaganna. Sérhæfðir afreksþjálfarar hafa ekki starfað innan FRÍ.

Aðgerðir

 • Stjórn FRÍ og framkvæmda- og íþróttastjóri FRÍ leita eftir auknu samstarfi og bættu
 • upplýsingarflæði varðandi landsliðsmál og afreksstarf.
 • Fræðslu- og útbreiðslunefnd FRÍ mun ásamt skrifstofu FRÍ koma á fleiri leiðum fyrir
 • afreksþjálfara við að deila þekkingu sinni og reynslu með fræðsluþingum sem og umræðum
 • á lokuðum samskiptasvæðum.
 • Þjálfaraþing verði skipulagt á tímabilinu með aðkomu alþjóðlegra þjálfara.
 • FRÍ styður við þjálfara í að sækja námskeið erlendis til að auka við þekkingu og efla
 • tengslanet sitt, með því m.a. að nýta sér tengsl við IAAF, EAA og norrænu samböndin.
 • Unnið verður að því að treysta frekar möguleika afreksþjálfara til að sinna þjálfuninni sem aðalstarfi, frekar en hlutastarfi og áhugamáli.

C – Aðstaðan

Markmið:

Í því skyni að stuðla að bættri aðstöðu íþróttafólks innan- og utanhúss, vinnur FRÍ að eftirfarandi:

Forsendur
Mannvirkja- og aðstöðumál eru lykilþáttur í starfseminni og forsenda afreksstarfs í frjálsíþróttum. Í dag eru tvær viðurkenndar innanhúss keppnishallir á Íslandi með fjögurra brauta 200m hlaupabraut, báðar á höfuðborgasvæðinu. Utan þessara halla er aðstaðan misjöfn en að jafnaði ekki góð. Önnur fyrrnefndra halla er í Hafnarfirði og er eingöngu nýtt sem frjálsíþróttahöll en höllin í Laugardalnum er mikið bókað fjölnotahús og því kemst afreksfólkið ekki þar að til æfinga og keppni nema hluta af æfinga og keppnistímabilinu. Aðgengi frjálsíþróttafólks að frjálsíþróttahöllinni í Laugardal er því óásættanlegt.

Aðstaðan utanhúss er þokkaleg á landsvísu varðandi æfingavelli en viðhald þeirra er æði misjafnt.

Í Reykjavík er alþjóðleg keppnisaðstaða á Laugardalsvelli en hún er langt í frá að vera í því ástandi sem þarf til fyrir afreksíþróttir. Þær bráðabirgðaviðgerðir sem farið var í 2015 eru komnar á endurnýjun sem og öll stökk- og kastaðstaða og svo gerviefnið sjálft. Þá eru frjálsíþróttir í dag víkjandi á vellinum vegna samninga um völlinn og FRÍ því ekki í aðstöðu til að treysta á völlinn fyrir alþjóðlega keppni né mót sem Reykjavíkurfélögin vilja halda, þar með talið Íslandsmót.

Aðgerðir

 • Keppnishæfur alþjóðlega viðurkenndur frjálsíþróttavöllur verður að vera til staðar í Laugardal. Völlurinn skal vera aðgengilegur öllum hópum innan FRÍ til æfinga og keppni þannig að frjálsíþróttafólk sé ekki víkjandi.
 • Alþjóðlegur keppnisvöllur í Laugardal geti með góðu hýst alþjóðakeppnir á borð við Evrópukeppni landsliða, Smáþjóðaleika eða Smáþjóðameistaramót með aðstöðu fyrir keppnislið og áhorfendur.
 • Tryggður sé forgangur afreksmanna að frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.
 • FRÍ styður sérstaklega baráttu aðildarfélaga með afreksstarf í því að tryggja aðgengi þeirra
 • að ásættanlegri æfinga- og keppnisaðstöðu.
 • FRÍ hefur sent áskorun á sveitarfélög varðandi viðhald frjálsíþróttamannvirkja. Verður þeirri
 • eftirfylgni haldið áfram og sveitarfélög hvött til dáða við viðhald mannvirkja sinna og uppbyggingu.

D – Stjórnskipan og stoðkerfi

Markmið:

Að treysta stoðkerfi og bakland afreksíþrótta með gagnsæi og fagmennsku að leiðarljósi.

Forsendur
Stjórn FRÍ og framkvæmda- og íþróttastjóri FRÍ bera ábyrgð á afreksstefnu FRÍ og vinna aðframgangi hennar.

Framkvæmdastjóri FRÍ kemur að fjölmörgum verkefnum er tengjast afreksstefnunni. Hann framfylgir áætlunum varðandi skipulag og fjármál afreksstarfs samkvæmt samþykktum Frjálsíþróttaþings og stjórnar.

Íþróttastjóri stýrir margvíslegum afreksverkefnum í umboði stjórnar. Íþróttastjóri er í virkum samskiptum/samstarfi við afreksfólk, afreksefni, landsliðsfólk og þjálfara aðildarfélaga, sem og við fagteymi FRÍ og reynir þannig að tryggja markvissan undirbúning íþróttafólks og landsliðs fyrir stórmóta- og landsliðsverkefni. Hann vinnur náið með ÍÞA og unglinganefnd FRÍ og hefur eftirlit með að stórmóta- og landsliðsverkefni séu á áætlun.

Íþróttastjóri veitir ráðgjöf til stjórnar FRÍ um skynsamlega ráðstöfun styrkja til afreksverkefna. Hann annast ennfremur skil skýrslna til stjórnarinnar um styrkt afreksverkefni og um reynslu af framkvæmd þeirra og kemur með tillögu á næstu skrefum.

Verkefnastjóri á skrifstofu vinnur að kynningarmálum afreksmála og nýtir öll þau tól og tæki sem gagnast best s.s. vefsíðu FRÍ, Facebook síðu, Instagram og Snapchat, svo eitthvað sé nefnt.

ÍÞA er stjórn FRÍ og framkvæmdastjóra/íþróttastjóra til ráðgjafar um málefni frjálsíþróttafólks innan sambandsins sem og um afreksstefnu FRÍ, stefnumótun á sviði afreksmála og gæðamál. Í því felst m.a. ráðgjöf um val á afreksfólki til stórmótaþátttöku og á landsliði og þjálfurum til þátttöku í landsliðsverkefnum. ÍÞA vinnur náið með frjálsíþróttaþjálfurum á Íslandi um málefni er snúa að íþróttafólki og vali í landslið.

Unglinganefnd FRÍ er stjórn og framkvæmdastjóra/íþróttastjóra FRÍ til ráðgjafar um afreksstefnu og stefnumótun á sviði afreksmála ungmenna. Nefndin sér um málefni og stefnumótun vegna unglingalandsliðs, Stórmóta- og Úrvalshóps ungmenna í samvinnu við íþróttastjóra FRÍ. Í því felst m.a. ráðgjöf um val á afreksungmennum til stórmótaþátttöku og á unglingalandsliði til þátttöku í landsliðsverkefnum.

Fagteymi FRÍ er teymi sem samanstendur af fagaðilum, s.s. lækni, íþróttafræðingi, sjúkraþjálfara, íþróttasálfræðingi, íþróttanuddara, næringarfræðingi, lífeðlisfræðingi eða öðru sérhæfðu fagfólki sem starfar í samvinnu við FRÍ. Teymið styður við þá íþróttamenn sem FRÍ hefur skilgreint að njóti þjónustu fagteymisins, t.d. fyrir þátttöku á stórmótum og landsliðsverkefnum. Fagteymið kemur einnig að faglegri fræðslu og forvörnum. Gengið er útfrá því að meðlimir fagteymis séu tiltækir í stórmóta- og landsliðverkefni á vegum FRÍ.

Innan FRÍ eru nú starfandi dómarar sem taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og hafa til þess réttindi, sem viðurkennd eru af IAAF. Dómaranefnd heldur námskeið, sinnir eftirliti, skipar dómara á mót á FRÍ í samræmi við lög og reglur.

Í lyfjamálum fylgir FRÍ fylgir eftir alþjóðlegum staðli sem tengist World-Anti-Doping-Agency (WADA). FRÍ vinnur náið með Lyfjanefnd ÍSÍ að framkvæmd lyfjaprófa.

Aðgerðir

 • Leiðarljós FRÍ í afreksmálum er að gagnsæi sé í ákvörðunum og fyrirkomulagi afreksstarfsins.
 • Stjórn FRÍ, framkvæmda- og íþróttastjóri FRÍ vinna í nánu samstarfi við ÍÞA og unglinganefnd FRÍ að framkvæmd afreksstefnu. Þau leita eftir samstarfi og stuðningi aðildarfélaga sinna og hagsmunaaðila, sjá til þess að stefnan sé vel kynnt og skilgreina nánari leiðir til útfærslu m.a. með hvetjandi umhverfi fyrir afreksíþróttafólk og afreksefni.
 • Stjórn FRÍ kappkostar að leggja fram uppfærða kostnaðaráætlun afreksverkefna sambandsins innan mánaðar frá því að Afrekssjóður ÍSÍ tilkynnir um árlega styrkveitingu sína til afreksverkefna FRÍ.
 • FRÍ mun koma á fót eigin afrekssjóði sem nýtur stuðnings bæði Afrekssjóðs ÍSÍ sem og einkafyrirtækja. Stækkaður sjóður eykur möguleikana á að áætlanir afreksstefnunnar og afrekssýnarinnar geti orðið að veruleika.
 • Á tímabilinu verður stóraukin áhersla lögð á aukinn sýnileika afreksstarfs og -íþróttafólks FRÍ. Bæði með bættri samvinnu við fjölmiðla og beinni miðlun í gegnum vef- og samfélagsmiðla.
 • Skrifstofa FRÍ verði kröftugur tengiliður milli samstarfsaðila og íþróttamanna.
 • Gerð verði skýr grein fyrir ráðstöfun styrkja til afreksverkefna og reynslu af framkvæmd
 • þeirra. Upplýsingar berast til stjórnar og hún sér til þess að þær séu öðrum aðgengilegar, til
 • lærdóms og upplýsinga.
 • FRÍ skilgreinir hvaða hópar íþróttafólks njóta þjónustu fagteymis FRÍ. Byggir sú
 • skilgreining/val á hlutlægum og upplýstum forsendum.
 • Unnið verði markvisst að því að fjölga dómurum með alþjóðaréttindi á fyrri hluta
 • tímabilsins.