Stefna og vinnurammi FRÍ í unglingamálum

Verkefni:
Helstu verkefni Frjálsíþróttasambands Íslands á sviði unglingamála eru tvö, þ.e. að starfrækja Úrvalshóp 15-19 ára annars vegar og Afrekshóp ungmenna 16-22 ára hins vegar :

a) Úrvalshópur FRÍ 15-19 ára þar sem markmiðið er að skapa umhverfi þar sem íþróttir snúast um fleira en keppni og árangur. Umhverfi þar sem unglingar/ungmenni fá ekki einungis tækifæri til að þróast sem íþróttamenn heldur einnig tækifæri til að eignast vini, skapa sér heilbrigðan lífstíl og læra að sigrast á sjálfum sér með því að setja sér raunhæf markmið og áætlanir.

b) Afrekshópur ungmenna FRÍ 16-22 ára þar sem markmiðið er að styðja við framtíðar afreksmenn Íslands sem eru að stíga sín fyrstu skref á alþjóðlegum stórmótum í unglinga- og ungmennaflokki og þjálfara þeirra. Stuðningurinn við íþróttamanninn snýr að því að aðstoða hann við að móta andlegan/líkamlegan styrk, fyrirbyggja meiðsli auk almenns undirbúnings fyrir þátttöku í stórmótum ofl.

Ábyrgð:
Unglinganefnd FRÍ ber ábyrgð á mótun stefnu/vinnuramma fyrir FRÍ í unglingamálum. Stefnu þessa skal endurskoða á hverju hausti, bera undir stjórn FRÍ til samþykktar og birta á síðu FRÍ að hausti ár hvert. Við mótun stefnunar skal unglinganefnd FRÍ skapa vettvang fyrir foreldra, þjálfara og keppendur til að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri.

Starfið 2021-2022:
Unglingastarf FRÍ veturinn 2021-2022 skiptist í þrjá flokka:

• Úrvalshópur FRÍ 15-19 ára
• Afrekshópur ungmenna FRÍ 16-22 ára
• Alþjóðleg mót fyrir 16-22 ára

Úrvalshópur FRÍ 15-19 ára:

Markmið:

Markmiðið með Úrvalshópi FRÍ er að sporna gegn brottfalli unglinga og ungmenna úr frjálsíþróttum með því að gefa þeim eitthvað skemmtilegt að keppa að og skapa þeim vettvang til að kynnast utan keppni og mynda vináttu og tengsl óháð íþróttafélagi. Markmiðið er líka gera íþróttamenn meðvitaða um þá vinnu sem þarf til að ná árangri í íþróttinni, hvort heldur sem andlega eða líkamlega.

Ábyrgð:

Unglinganefnd FRÍ ber ábyrgð á að móta ramma utan um starf hópsins og viðmið fyrir vali í hópinn. Starfsmenn FRÍ eru aftur á móti ábyrgir fyrir því að taka saman upplýsingar um þá sem eru í hópnum. Það skal gert annars vegar að hausti þegar utanhússtímabilinu er lokið og hins vegar að vori að innanhússtímabili loknu og afrekaskrár fyrir tímabilin hafa verið uppfærðar.

Val í hópinn:

Að hausti er nýr hópur valinn út frá árangri sumarsins en árangursviðmið er að finna hér. Hópurinn er fyrir 15-19 ára en að hausti eru teknir inn keppendur í flokkunum 14-18 ára, þ.e. þeir sem færast upp í aldursflokka 15-19 ára um áramótin. Miðað er við árangursviðmið fyrir 15 ára við val á 14 ára keppendum í hópinn. Að loknu innanhússkeppnistímabilinu á vorin er tilkynnt hverjir bættust við í hópinn og fellur þarf af leiðandi enginn úr hópnum yfir veturinn en að hausti er nýr hópur valinn. Listi yfir þá sem náð hafa lágmörkum skal fyrst sendur til þjálfara til að gefa þeim tækifæri til tilnefninga í hópinn, t.d. einhver sem hefur verið í hópnum en gat ekki keppt um sumarið vegna meiðsla eða fulltrúa frá fámennum félögum úti á landi. Veita skal þjálfurum viku frest til tilnefninga. Að því loknu skal tilkynna hópinn og dagskrá vetrarins.

Viðburðir:

Stefnt skal að því að halda æfingabúðir fyrir Úrvalshóp að vori til. Í þeim skal leitast við að því að allir fái leiðsögn/þjálfun í sinni grein. Einnig skal stuðlað að því að efla tengsl innan hópsins. Samhliða æfingabúðum og jafnvel oftar yfir veturinn skal boðið upp á fræðsluerindi fyrir úrvalshópinn, foreldra og þjálfara. Dæmi um áhugaverð fræðsluerindi fyrir þennan hóp eru: næringarfræði, lyfjamál, sálfræði, reynslusögur afreksfólks, meiðslaforvarnir ofl.

Afrekshópur ungmenna FRÍ 16-22 ára:

Markmið:

Markmiðið með Afrekshóp ungmenna er að styðja við framtíðar afreksmenn Íslands sem eru að stíga sín fyrstu skref á alþjóðlegum stórmótum í ungmennaflokki og þjálfara þeirra. Stuðningurinn snýr til dæmis að því að aðstoða íþróttamanninn við að móta andlegan styrk og fyrirbyggja meiðsli auk almenns undirbúnings fyrir þátttöku í stórmótum.

Ábyrgð:

Unglinganefnd FRÍ ber ábyrgð á að móta ramma utan um starf hópsins og viðmið fyrir vali í hópinn. Starfsmenn FRÍ eru aftur á móti ábyrgir fyrir því að taka saman hverjir eru í hópnum. Það skal gert jafnóðum yfir árið eftir því sem keppendur ná þeim árangri sem þarf samkvæmt reglum hópsins.

Val í hópinn:

Afrekshópur ungmenna er fyrir þá íþróttamenn sem hafa sýnt að þeir geta unnið sér inn keppnisrétt á alþjóðlegum stórmótum (Evrópu- og heimsmeistaramótum og öðrum stórmótum) í ungmennaflokkum U18, U20 og U23 (16-22 ára). Íþróttamaður getur verið í hópnum frá 5. janúar almanaksárið sem hann verður 16 ára og til áramóta árið sem hann verður 22 ára, nái hann gildandi viðmiðum í hópinn hverju sinni. Hópurinn er endurskoðaður og birtur í janúar ár hvert.

Viðmið í Afrekshóp ungmenna eru ávallt byggð á nýjustu lágmörkum sem gefin eru út fyrir alþjóðleg stórmót í hverjum aldursflokki. Ný lágmörk eru birt jafn óðum og þau eru gefin út.

Íþróttamenn sem ná viðeigandi viðmiðum inn í Afrekshóp ungmenna eru teknir inn í hópinn jafnóðum yfir tímabilið sem viðmiðin gilda fyrir. Tvær leiðir eru fyrir íþróttamenn til að tryggja sér sæti í Afrekshóp ungmenna*:

a) Lágmarki náð á alþjóðlegt mót: Íþróttamaður nær lágmarki á alþjóðlegu móti ungmenna (EM, HM eða önnur alþjóðleg mót með lágmörkum) innan þess lágmarka tímabils sem gefið er út.

b) Íþróttamaður nær lágmarki á alþjóðlegu móti og keppir á því: Íþróttamaður sem keppir á alþjóðlegum mótum ungmenna árið á undan heldur sæti sínu í Afrekshópi ungmenna. Þetta þýðir að þegar nýr hópur er birtur í janúar þá eru þeir íþróttamenn sem kepptu á alþjóðlegu móti árið á undan áfram í hópnum.

*ATH! Unglinganefnd áskilur sér rétt til að taka ekki íþróttamann í Afrekshóp ungmenna sem hefur sýnt af sér óíþróttamannslega hegðun, ekki fylgt fyrirmælum þjálfara og fararstjóra í keppnisferðalögum á vegum FRÍ eða sýnt slaka ástundun eða almennt áhugaleysi á íþróttinni, til að mynda með því að neita að taka þátt í verkefnum erlendis fyrir hönd FRÍ án gildrar ástæðu (þetta er metið í samvinnu við Afreksstjóra FRÍ, þjálfara og viðkomandi íþróttafélag).

Fagteymi FRÍ:

Til viðbótar við það sem er í boði fyrir Úrvalshóp skal íþróttamönnum Afrekshóps ungmenna boðið upp á aðstoð Fagteymis FRÍ, s.s. aðgengi að lækni, sjúkraþjálfara, nuddara, íþróttasálfræðingi og næringarfræðingi þar sem m.a. er farið yfir íþróttasálfræði og/eða meiðslaforvarnir auk ítarlegri fræðslu um hverju búast má við í þátttöku á stórmótum, t.d. lyfjapróf, flugþreytu oþh.

Afreksstyrkur FRÍ:

Þeir íþróttamenn sem tilheyra Afrekshópi ungmenna hafa aðgengi að afreksstyrk að uppfylltum tilskyldum skilyrðum – sjá reglugerð FRÍ um afrekssjóð og afreksstefnu FRÍ. Við síðari úthlutun styrkja er heimilt að taka mið af sömu atriðum og tilgreind eru í lok kaflans ,,Val í hópinn“, þ.e. hvort viðkomandi íþróttamaður hafi neitað að taka þátt í verkefnum erlendis fyrir hönd FRÍ án gildrar ástæðu o.s.frv.

Alþjóðleg stórmót fyrir 16-22 ára

Þátttaka í mótum:

Unglinganefnd FRÍ skal á hverju hausti taka saman lista yfir þau unglinga- og ungmennamót sem standa Íslandi til boða að taka þátt í sumarið eftir. Einnig skal taka saman hversu margir eru nú þegar búnir að ná lágmörkum, hversu margir eru líklegir til að ná lágmörkum á hvert mót fyrir sig og hversu marga þjálfara/fararstjóra er líklegt að þurfi að senda með hópnum. Þennan lista skal senda á stjórn FRÍ til skoðunar/samþykktar. Endanleg ákvörðun um lágmörk og þátttöku á stórmótum er á ábyrgð stjórnar FRÍ. 

Val á keppendum:

Unglinganefnd FRÍ tekur á hverju hausti saman lista yfir þau stórmót sem verða í boði sumarið eftir fyrir aldurshópinn 16-22 ára og kemur með tillögur að reglum og tímasetningum fyrir vali á keppendum á mótin. Listi þessi er sendur á stjórn FRÍ til samþykktar. Unglinganefnd FRÍ mun ætið reyna að miða við lágmörk og tímamörk sem mótshaldarar setja en í einhverjum tilfellum gæti það reynst erfitt t.d. ef ferðast þarf til framandi landa þar sem krafa er um bólusetningar, flugsamgöngur flóknar oþh. Tilkynnt skal á síðu FRÍ í síðasta lagi í byrjun janúar hvaða reglur og tímasetningar gilda um val á hvert mót fyrir sig.

Unglinganefnd FRÍ ásamt starfsmönnum FRÍ bera ábyrgð á að fylgjast með hvaða keppendur ná lágmörkum. Keppendur eru einungis valdir til þátttöku á mót hafi þeir náð tilskyldum lágmörkum en einnig verður fylgst með að þeir séu í keppnishæfu ástandi. Þegar unglinganefnd hefur valið keppendur er listinn sendur á Afreksstjóra FRÍ til samþykktar. Sé valið í samræmi við þær reglur sem voru samþykktar af stjórn og kostnaður við þátttöku á mótinu innan fjárhagsáætlunar FRÍ þá getur framkvæmdastjóri FRÍ samþykkt valið. Ef að vafamál er um að farið hafi verið eftir valreglum eða fjöldi keppenda er mun meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir þá mun stjórn FRÍ stíga inn og ákveða hvernig skuli brugðist við.

Þegar listinn hefur verið samþykktur skal haft samband við alla keppendur, þeim formlega tilkynnt um valið og þeir boðaðir á fund til að fara yfir ferðatilhögun o.s.frv. Séu keppendur yngri en 18 ára skulu forráðamenn boðaðir með á fundinn. Ef keppandi getur ekki tekið þátt á mótinu skal hann tilkynna unglinganefnd og FRÍ það fyrir lokaskráningu, ef keppandi tilkynnir eftir lokaskráningu að hann taki ekki þátt vegna t.d. meiðsla þarf hann að skila inn læknisvottorði.

Keppnisdagskráin er oft mjög þétt og því gætu keppendur sem hafa náð lágmörk á fleiri en eitt stórmót sem haldin eru með stuttu millibili þurft í samráði við þjálfara sinn að velja hvaða móti þeir óska eftir að taka þátt. Þetta á sérstaklega við aldurhópinn 16-17 ára sem hafa nokkuð mörg mót/verkefni er að velja úr yfir sumarið.

Keppnisferðalög á vegum Unglinganefndar FRÍ:

Miðað skal við að keppendur FRÍ á mótum U23 hefji/ljúki ferðalagi í Keflavík. Afreksstjóri hefur heimild til að veita undanþágu frá þessu fyrirkomulagi liggi góðar og gildar ástæður þar að baki.

Val á þjálfurum:

Þegar unglinganefnd FRÍ hefur fengið staðfestingu frá stjórn FRÍ á mótalista skal listinn sendur út til þjálfara og þeir beðnir að svara hvort þeir gefi kost á sér sem þálfarar á einhver af þessum mótum og hvort það sé þá háð því að þeirra keppandi nái lágmörkum eður ei. Séu fleiri sem gefa kost á sér á tiltekin mót þá skal farið yfir stöðuna í samvinnu við Afreksstjóra FRÍ og reynt að finna lausn sem hentar keppendum best s.s. að sá hópur þjálfara og fararstjóra sem fylgir hópnum út sé fær um að sinna sem best þeim íþróttamönnum sem eru skráðir á mótið. 

Nánari fyrirspurnir

Deila

Stefna og vinnurammi FRÍ í unglingamálum

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Dæmi um leit