Áframhaldandi samstarf Valitor og FRÍ

Frjálsíþróttasamband Íslands og Valitor hafa endurnýjað samstarfssamning sín á milli. Valitor hefur undanfarna áratugi verið bakhjarl FRÍ og stutt dygglega við bakið á afreksfólki en í auknum mæli einnig við afreksefni framtíðarinnar.

Stór verkefni eru framundan hjá FRÍ á þessu ári, en þar bera hæst Ólympíuleikarnir, Evrópubikarkeppni landsliða, Evrópumeistaramótum U23, U20 og U18 ásamt Heimsmeistaramóti U20 ára.

„Það er okkur mikið gleðiefni að halda áfram farsælu samstarfi við Valitor.“ segir Freyr Ólafsson formaður FRÍ.  „Samstarf FRÍ og Valitor hefur verið langt og farsælt. Við erum stolt af því að hafa lagt okkar af mörkum í velgengni frjálsíþróttafólks á Íslandi og hlökkum til að fylgjast með frekari afrekum.“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Valitor.

Valitor var stofnað árið 1983 og er greiðslulausnafyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á sviði færsluhirðingar, greiðslugátta og kortaútgáfu og auðveldar viðskipti með vörur og þjónustu. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en einnig er starfsstöð í Bretlandi og nær starfsemin til 28 landa.