Æfingabúðir Úrvalshóps FRÍ fóru fram um helgina og voru yfir 60 íþróttamenn sem tóku þátt en einnig voru 11 þjálfarar. Helgin einkenndist af hópefli, æfingum í greinum, mælanlegum æfingum, yoga, kahoot skemmtun samhliða fræðslu og fjöri. Alexander sjúkraþjálfari spjallaði við hópinn um fyrirbyggjandi aðferðir og meðhöndlun meiðsla og ólympíufararnir og fyrrum landsliðsmennirnir Jón Arnar Magnússon (tugþrautarmaður) og Vésteinn Hafsteinsson (kringlukastari) fóru yfir sinn frjálsíþróttaferil og sátu fyrir svörum.
“Helgin fór vel fram, ótrúlega gaman að sjá allt þetta metnaðarfulla unga íþróttafólk mæta og taka þátt í öllu! Það er alltaf jafn mikil spenna fyrir helginni hjá íþróttafólkinu og okkur sem eru að skipuleggja æfingabúðirnar en ég ásamt Unglinganefnd FRÍ höfum skipulagt þetta síðustu ár. Á þessu ári fengum við einnig sendiherra Úrvalshóps FRÍ til að aðstoða við skipulagningu og framkvæmd. Við byrjuðum með verkefnið sendiherrar Úrvalshóps FRÍ í fyrra en þetta er íþróttafólk sem er í Úrvalshóp FRÍ og hefur mikinn áhuga og metnað fyrir unglingastarfi FRÍ. Ég segi alltaf að þetta sé uppáhalds helgin mín á árinu enda ekkert betra en að eyða helginni með þessu frábæra íþróttafólki,” sagði Íris Berg Bryde, verkefnastjóri FRÍ.
Myndir frá helginni eru að finna hér.