Algengt er að íþróttafélög standi fyrir æfingabúðum fyrir íþróttafólk sitt á milli keppnistímabila til að undirbúa næsta tímabil. Við heyrðum í þjálfurum Breiðabliks, FH og Fjölnis og forvitnuðumst um ferðir þeirra um nýliðna páska.
Breiðablik
“Breiðablik fór með 14 iðkendur og tvo þjálfara til Puerto de la Cruz Tenerife þann 25. mars. Við tókum 14 æfingar á 10 dögum, vorum alltaf mætt uppá völl rétt fyrir kl. 10:00 á morgunæfingar og búin um 12:00. Mikil fjölbreytni var í æfingunum og þó nokkur átök. Seinnipartinn voru ýmist lyftingar eða endurheimt. Á hótelinu var mjög fínn lyftingarsalur og stór garður þar sem hægt var að taka léttar æfingar s.s. niðurskokk og hopp. Maturinn á hótelinu var mjög góður, hlaðborð þrisvar á dag. Nóg af kjöti, kjúkling, fisk, ferskum ávöxtum, góðu meðlæti og ís. Við vorum mjög heppin með veður og var hitinn yfirleitt rétt yfir 20°C í sterkri sól. Við mælum eindregið með þessum stað, erum öll helpeppuð fyrir sumrinu og allt er á lóðréttri uppleið í Kópavoginum fagra,” sögðu þeir Bjarki Rúnar Kristinsson og Alberto Borges Moreno þjálfarar Breiðabliks.
FH
“Frjálsíþróttadeild FH fór í æfingabúðir til Albufeira í Portúgal dagana 25. mars – 5. apríl. Alls voru 23 íþróttamenn með í för sem nýttu tækifærið vel að æfa eins og afreksmenn í hita og sól yfir páskana. Völlur, rækt og utanvega-braut voru til fyrirmyndar og náði hópurinn að æfa mjög vel. Þrátt fyrir mikla rigningu fyrstu dagana þá rættist úr veðrinu seinni hluta ferðarinnar,” sagði Hermann Þór Haraldsson þjálfari FH.
Fjölnir
“Fjölnir fór í æfingabúðir til Monte Gordo í Portúgal. Það var flottur hópur ungra iðkenda sem tók vel á því eða um tíu manns. Æfingar gengu rosalega vel, við fórum vel yfir tækni og byrjuðum á fyrstu lotu í styrktar- og hlaupa þjálfun. Sól, æfingar, hlaðborð og allir glaðir,” sagði Matthías Már Heiðarsson þjálfari Fjölnis.
Hægt að sjá myndskeið hér.