A-lið ÍR Bikarmeistari FRÍ innanhúss – Þrjú Íslandsmet féllu í dag

A-lið ÍR sigraði í kvennakeppni mótsins með 62 stig, lið Breiðabliks varð í öðru sæti með 54 stig og FH varð í þriðja sæti með 49 stig.
FH sigraði í karlakeppni mótsins með 61 stig, A-lið Norðurlands varð í öðru sæti með 53,5 stig og lið Fjölnis/Ármanns varð í þriðja sæti með 49 stig.
 
Þrjú Íslandsmet fullorðina féllu í keppninni í dag.
 
Óli Tómas Freysson FH bætti Íslandsmet karla í 200m hlaupi um 16/100 úr sek., þegar
hann hljóp á 21,65 sek. Bætti hann þar met Sveins Elíasar Elíasarsonar sem var 21,80 sek.
frá sl. ári. Þetta er jafnframt met í flokki 21-22 ára. Sveinn Elías Elíasson Fjölni
varð í öðru sæti í hlaupinu á 21,73 sek. og bætti hann eigin unglingamet um 7/100 úr sek.
Báðir hlupu því undir gamla Íslandsmetinu í dag.
 
Þá bætti sveit Breiðabliks eigið Íslandsmet kvenna í 4x400m boðhlaupi, þegar þær hlupu
á 3:56,92 mín, en gamla metið var 3:58,51 mín. Þetta var jafnfram met í flokki 21-22 ára.
Sveit Breiðabliks skipuðu þær Linda Björk Lárusdóttir, Stefanía Valdimarsdóttir,
Þuríður Erla Helgadóttir og Herdís Helga Arnalds.
 
Sveit Fjölnis/Ármanns bætti Íslandsmet karla í 4x400m boðhlaupi karla og ungkarla 21-22 ára,
en sveitin var skipuð liðsmönnum Fjölnis. Sveitin hljóp á 3:21,66 mín, en gamla metið
átti sveit ÍR, 3:22,91 mín, sett á Meistaramóti Íslands fyrir hálfum mánuði.
Sveitina skipuðu þeir Leifur Þorbergsson, Bjarni Malmquist Jónsson, Olgeir Óskarsson og
Sveinn Elías Elíasson.
A-sveit Norðurlands sigraði í hlaupinu á 3:21,37 mín, en sveitin var skipuð liðsmönnum frá
fleiri en einu félagi og fær því árangurinn ekki skráðan sem félagsmet.
 
Sveinn Elías Elíasson Fjölni bætti Íslandsmet unglinga (19-20 ára) og ungkarla (21-22 ára) í stangarstökki þegar
hann stökk yfir 4,52 metra. Sveinn var reyndi síðan við 4,70 metra, en felldi naumlega.
 
Að lokum bætti Dóróthea Jóhannesdóttir ÍR telpnamet í 200m hlaupi, en hún hljóp á 26,53 sek.
Gamla metið var í eigu Stefaníu Valdimarsdóttur, 26,62 sek. frá sl. ári.
 
Þetta var sannarlega frábær endir á innanhússtímabilinu, en þetta var síðasta stóra mótið í fullorðinsflokkum á þessum vetri, en Meistaramót 12-14 ára fer fram 5.-6. apríl nk.
 
Um aðra helgi fer svo fram Norðurlandsmeistaramót öldunga 35 ára og eldri í Laugardalshöllinn
með um 260 keppendum, þar af eru tæplega 200 erlendir þátttakendur.
 
Heildarúrslit frá Bikarkeppni FRÍ eru að finna í mótaforritnu hér á síðunni, bæði í einstökum keppnisgreinum og í stigakeppni liða, en sjö lið tóku þátt í keppninni að þessu sinni.
 
Myndina af Bikarmeisturum ÍR tók Hafsteinn Óskarsson.

FRÍ Author