95. Meistaramót Íslands hefst á morgun

  1. Meistaramót Íslands fer fram um helgina, 12.- 13. júní á Akureyri. Það eru 154 keppendur skráðir frá sautján félögum. Keppni hefst klukkan 11:00 á kringlukasti karla. Mikið af okkar fremsta frjálsíþróttafólki er skráð til leiks og búast má við frjálsíþróttaveislu á Akureyri um helgina.

Guðni Valur Guðnason úr ÍR er á meðal keppenda í kringlukasti karla. Hann heldur áfram að reyna við Ólympíulágmarkið sem er 66 metrar sléttir en hann er búin að kasta lengst 64,85 metra í ár. Hann hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari í greininni og á einnig Íslandsmetið sem er 69,35 metrar. 

Íslandsmethafinn í sleggjukasti karla, Hilmar Örn Jónsson úr FH kastar sleggju á laugardaginn. Hann hefur kastað lengst 74,57 metra í ár og ætlar hann að freista þess að ná Ólympíulágmarkinu sem er 77,50 metra. Íslandsmetið hans í greininni er 77,10 metrar.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir heldur enn í vonina á að komast á sína fyrstu Ólympíuleika. Þetta mót er því gríðarlega mikilvægt fyrir hana til þess að safna stigum fyrir leikana. Hún keppir bæði í 100 og 200 metra hlaupi og á hún Íslandsmetið utanhúss í báðum greinum en síðara nefnda hlaupið er hennar grein fyrir leikana. Hún á best 23,45 sekúndur í 200 metra hlaupi 

Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR og Sindri Hrafn Guðmundsson úr FH keppa báðir á laugardag í spjótkasti karla. Þeir koma beint frá Bandaríska Háskólameistaramótinu í Eugene þar sem Dagbjartur verð annar og Sindri fimmti. Sindri á lengsta kastið í ár, 79,83 metrar og Dagbjartur er búinn að kasta lengst 78,66 metra í ár. Það verður því spennandi keppni milli þeirra á laugardag.

Baldvin Þór Magnússon, nafn sem allir ættu að kannast við, kemur beint frá Bandaríkjunum á heimaslóðirnar sínar. Hann er skráður í 800, 1500 og 5000 metra hlaup um helgina. Hann er búinn að setja Íslandsmet í 3000 metra hlaupi innanhúss og 1500 og 5000 metra hlaupi utanhúss. 

Íslandsmethafinn í kúluvarpi kvenna innan- og utanhúss keppir um helgina. Hún er skráð í kúlu- og kringlu. Erna Sóley Gunnarsdóttir er búin að eiga stórkostlegt tímabil í Bandaríkjunum. Hún stórbætti Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss í febrúar með kast upp á 16,95 metrar. Það verður gaman að sjá hvað þessi unga og efnilega stúlka mun gera á mótinu um helgina.