94 keppendur og nokkur met féllu á Áramóti Fjölnis í gær

94 keppendur tóku þátt í Áramóti Fjölnis í Laugardalshöll í gær, en mótið var jafnframt 20 ára afmælismót.
 
Snorri Sigurðsson ÍR bætti drengjametið í 800m hlaupi, þegar hann stórbætti árangur sinn í greininni og hljóp á 1:56,45 mín. Gamla metið átti Ólafur Konráð Albertsson ÍR, sett á árinu 2007.
Bjarki Gíslason UFA bætti eigið met í þremur aldursflokkum í stangarstökki um 1 sentimetra þegar hann vippaði
sér yfir 4,61 metra. Þetta er nýtt met í drengja (17-18 ára), unglinga (19-20 ára) og ungkarlaflokki (21-22 ára).
Gamla metið setti hann á móti í Boganum fyrir rúmlega hálfum mánuði.
Þá bætti strákasveit ÍR met í 4x200m boðhlaupi í gær, en sveitin hljóp á 1:59,05 mín. Sveitina skipuðu þeir Skúli Gunnarsson, Hans Holm Aðalsteinsson, Brynjólfur Haukur Ingólfsson og Gunnar Ingi Harðarsson.
 
Ágætur árangur náðist í nokkrum greinum og má þar m.a. nefna að Bjartmar Örnuson UFA hljóp 800m á 1:56,26 mín. Fjölþrautarkonan, Helga Margrét Þorsteinsdóttir hljóp 800m á 2:16,78 mín.
Magnús Valgeir Gíslason Breiðabliki hljóp 60m hlaup á 7,10 sek. og Kristinn Torfason FH hljóp 200m á 22,93 sek.
 
Heildarúrslit eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni.

FRÍ Author