91. Meistaramót Íslands um helgina

91. Meistaramót Íslands fer fram á Selfossvelli um helgina.

Fremsta frjálsíþróttafólk landsins er skráð til leiks og má búast við mikilli skemmtun og hörkukeppni.

Ari Bragi Kárason FH og Kolbeinn Höður Gunnarsson FH munu berjast um sigur í 100 m og 200 m hlaupi en Ari Bragi setti nýtt glæsilegt Íslandsmet í 100 m hlaupi síðastliðinn sunnudag. Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni stefnir á að ná lágmarki á HM í London og mun leggja allt í sölurnar við að ná lágmarkinu um helgina. Lágmarkið er 61,40 m. Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH er skráð í 100 m, 100 m grindarhlaup og 400 m grindarhlaup en hún stefnir einnig á að ná HM lágmarki í 400 m grindarhlaupi.

Guðni Valur Guðnason ÍR keppir í kringlukasti og Hilmar Örn Jónsson FH í sleggjukasti. Sindri Hrafn Guðmundsson Breiðabliki og Örn Davíðsson FH eru skráðir til leiks í spjótkasti en búast má við hörkukeppni á milli þeirra.

Þá er Tíana Ósk Whitworth ÍR skráð í 100 m og 200 m en hún náði næstbesta tíma íslenskrar konu í 100 m um síðustu helgi.

Veðurspáin er mjög góð fyrir helgina og hvetjum við fólk til þess að leggja leið sína á Selfoss og styðja við keppendur.

Hér má sjá tímaseðil mótsins.