Í dag er dagur til að fagna. FRÍ er 75 ára í dag. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan sambandið var stofnað þann 16. ágúst árið 1947, aðeins tveimur árum eftir að friður komst á að lokinni heimsstyrjöld. Frjálsíþróttastarf hafði verið öflugt á Íslandi löngu fyrir stofnun sambandsins. En með stofnun FRÍ og annarra sérsambanda var stigið mikilvægt skref þar sem hver og ein íþrótt tók að stýra sínum málum og koma fram í alþjóða samstarfi fyrir hönd Íslands. Samstarf sem er enn í miklum blóma.
Ekki er um eiginleg hátíðarhöld að ræða í dag. Tvennt veldur. Annars vegar að við tókum forskot á sæluna í vor þegar við héldum Selfoss Classic á Selfossi og heiðruðum einnig Ólympíufara okkar í frjálsum. Okkar glæsilega afreksfólk sem hefur haldið uppi merkjum lands og þjóðar og um leið okkar íþróttar þessa áratugi. Hins vegar vegna þess að okkar fremsta íþróttafólk keppir nú á stórglæsilegu Evrópumóti í frjálsíþróttum á Ólympíuleikvanginum í Munchen.
Þar eigum við góða fulltrúa. Nýliðinn Erna Sóley Gunnarsdóttur sem kastaði í gær kúlu og á morgun kasta þeir Hilmar Örn Jónsson sleggju og Guðni Valur Guðnason kringlu.
Fyrir hönd stjórnar FRÍ vil ég óska öllum frjálsíþróttamönnum fyrr og nú til hamingju með áfangann. Sérstaklega verður að nefna eldhuga í frjálsum, þeim sem stigu mikilvæg skref fyrir 75 árum en ekki síður þeirra sem hafa haldið uppi merkjum frjálsíþróttanna, tryggt að loginn í kyndlinum hefur aldrei slokknað. Það hefur tekist með mögnuðu hugsjónastarfi í áratugi.
Saman getum við glaðst yfir liðnum afrekum en ekki síður þeim einstöku tækifærum sem bíða frjálsíþróttamanna. Með samstöðu, dugnaði og áhuga fyrir eflingu frjálsíþrótta hér eftir sem hingað til er engu að kvíða um framtíðina í frjálsum.
Með kærum kveðjum frá Munchen,
Freyr Ólafsson, formaður FRÍ