Fyrsta landskeppni Íslands í frjálsíþróttum var haldin í Reykjavík dagana 26. og 27. júní 1948. Mótherjinn var Noregur og kepptu tveir keppendur frá hvoru landi í hverri grein. Norðmenn sigruðu með nokkrum mun, 92 stig gegn 73 stigum Íslands. Frammistaða Íslendinga þótti engu að síður góð, Haukur Clausen sigraði í þremur greinum, 100 og 200 m hlaupi og 110 m grindahlaup. Finnbjörn Þorvaldsson sigraði í langstökki og Ísland vann sigur í báðum boðhlaupunum.
Nú þegar vinna er langt komin við að skrá alla sem tekið hafa þátt í landskeppni fyrir Íslands hönd er gaman að rifja upp mörg eftirminnilega atvik í þessari sögu. Frá síðustu öld má nefna tvær landskeppnir sem vöktu mikla athygli.
Landskeppnin við Noreg og Danmörku frá 1951 er líklega sú sem mesta athygli hefur fengið í sögunni. Þá sigraði Ísland þessar tvær frændþjóðir í landskeppni í frjálsíþróttum og dagurinn (29. júní) stundum kallaður mesti sigurdagur Íslands í íþróttum því sama dag vann Ísland Svíþjóð í landsleik í knattspyrnu. Besta afrekið vann Gunnar Huseby í kúluvarpi, 16,69 m, en hann kastaði nær 2 m lengra en næsti maður. Ísland sigraði í 11 greinum.
Evrópubikarkeppnin í frjálsíþróttum 1985 er mjög eftirminnileg. Mikið var lagt í undirbúning og kynningu og stemmingin minnti á gömlu gullöld íslenskra frjálsíþrótta. Um 3000 áhorfendur mættu fyrri dag keppninnar og um 2000 seinni daginn en keppni fór fram á Valbjarnarvelli við hlið Laugardalsvallar. Margir heimsfrægir keppendur mættu til leiks og stemmingin frábær. Áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn. Mikil spenna var í spjótkastkeppninni þar sem Einar Vilhjálmsson náði sigurkasti í síðustu umferð og þá má nefna sigur Odds Sigurðssonar í 400 m þar sem hann hljóp sigurhring eftir sigur í spennandi keppni.
Skrifaði Gunnar Páll Jóakimsson