61. Frjálsíþróttaþingi slitið í Kópavogi

61. Frjálsíþróttaþingi var slitið í dag í Kópavogi. Bæjarfulltrúarnir Pétur Hrafn Sigurðsson og Theodóra S. Þorsteinsdóttir voru þingforsetar og stýrðu þinginu af mikilli röggsemi. Ekki veitti af því alls voru afgreiddar 54 þingtillögur. Hjálpaði mjög til að þingið var rafrænt, í fyrsta sinn, sem jók á skilvirkni þess.

Góðir gestir heiðruðu þingið með nærveru sinni. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi flutti áhugaverða ræðu þar sem hann sýndi meðal annars aðstöðumálum frjálsíþróttamanna í Kópavogi mikinn áhuga og skilning. Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ flutti góða kveðju og afhenti viðurkenningar fyrir vel unnin störf í þágu frjálsíþróttahreyfingarinnar. Lýsti hann sérstakri ánægju með ábyrga fjármálastjórn FRÍ. Örn Guðnason varaformaður UMFÍ flutti góða kveðju og ræddi sérstaklega um glæsilega íþróttahátíð á Sauðarkróki 12.-15. júlí þegar Landsmótið, nýr viðburður UMFÍ og Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fara fram samhliða.

Af  þingtillögum sem voru samþykktar má nefna nýja reglugerð um götuhlaup (sjá hér) sem ramma mun betur inn framkvæmd götuhlaupa en verið hefur sem og lagabreytingu sem veitir stjórn FRÍ heimild til að gefa út nýjar reglugerðir sem til þessa hefur aðeins verið gert á Frjálsíþróttaþingum, á tveggja ára fresti.

Á þinginu var birt starfsskýrsla stjórnar FRÍ sem sjá má hér.

Myndir frá þinginu má nú finna á myndasíðu FRÍ hér.

Á þinginu var kjörin ný stjórn og formenn nefnda sambandsins, sjá nánar hér. Formaður sambandsins Freyr Ólafsson var endurkjörinn til næstu tveggja ára.

Á þinginu veitti FRÍ heiðursviðurkenningar í samræmi við lög FRÍ, sjá yfirlit hér.