60 ár frá Íslandsmeti Vilhjálms

Í dag eru liðin 60 ár frá Íslandsmeti Vilhjálms Einarssonar í þrístökki. Metið setti hann á Laugardalsvellinum, 7. ágúst árið 1960. Vilhjálmur stökk 16,70 metra og á þeim tíma var það næst lengsta stökkið í heiminum. Metið stendur enn þann dag í dag og er elsta gildandi Íslandsmetið. Ekki hafa margir Íslendingar komist nálægt meti Vilhjálms síðan þá og er hann eini Íslendingurinn sem stokkið hefur yfir 16 metra.

Fyrra Íslandsmetið hafði Vilhjálmur sett á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956. Þá stökk hann 16,26 metra sem var Ólympíumet og vann hann til silfurverðlauna. Vilhjálmur varð þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum og er sá eini sem unnið hefur silfur á Ólympíuleikum í einstaklingskeppni.

Vilhjálmur Einarsson