53. Bikarkeppni FRÍ

Á morgun, laugardaginn 27. júlí fer fram 53. Bikarkeppni FRÍ. Mótið fer fram í Kaplakrika og stendur yfir frá 13 til 15 fyrir utan stangarstökkið sem hefst 11:30. Átta lið eru skráð til keppni að þessu sinni; Breiðablik, FH-A, FH-B, Fjölnir/Afturelding, HSK, ÍR-A, ÍR-B og UMSS/KFA.

Keppnisfyrirkomulag mótsins er með þeim hætti að hvert lið sendir einn keppenda í hverja grein. Átta stig fást fyrir fyrsta sætið, sjö stig fyrir annað sætið og svo koll af kolli. Það lið sem hlýtur flest stig fær bikarinn eftirsótta. Mikil samheldni og liðsheild skapast á þessu móti og er mótið stutt og spennandi. Sigurvegari í fyrra var ÍR sem hlaut jafn mörg stig og FH en sigruðu á fleiri gullverðlaunum. Erfitt er að spá fyrir um sigurvegara í ár en búast má við jafnri keppni milli FH og ÍR sem hafa verið ofarlega í baráttunni síðustu ár. Einnig búa hin félögin yfir landsliðsfólki sem gætu stolið sigrum hér og þar. Keppt verður í átján greinum í heildina og því 144 stig í pottinum.

Þær fjórar munu mætast í 100 metra grindarhlaupinu

Einn efnilegasti spjótkastari Evrópu

Mótið hefst á stangarstökki kvenna þar sem Hulda Þorsteinsdóttir, ÍR er á meðal keppenda. Hún hefur haft mikla yfirburði í greininni síðustu ár þrátt fyrir mikil meiðsli. Hún keppti í fyrsta skipti í langan tíma á Meistaramóti Íslands fyrir tveimur vikum og bar þar sigur úr býtum. Búast má við að hún geri slíkt hið sama á morgun.

Í annarri grein dagsins er ÍR sigur einnig líklegur. Þar á ferðinni verður Dagbjartur Daði Jónsson sem keppir fyrir hönd ÍR í spjótkasti. Dagbjartur á lengsta kast ársins á Íslandi og keppti hann á dögunum á Evrópumeistarmóti 22 ára og yngri þar sem hann varð í sjötta sæti.

Skagfirski þrautakappinn Ísak Óli Traustason mun keppa fyrir sameiginlegt lið UMSS og KFA í 110 metra grindarhlaupi. Hann hefur verið á mikilli siglingu á þessi ári og bætt sig í fjölmörgum greinum. Hann er sá eini í hlaupinu sem á undir 15 sekúndur en mun eflaust fá mikla samkeppni frá Benjamíni Jóhanni Johnsen, ÍR og Árna Birni Höskuldssyni, FH sem eiga best rétt rúmlega 15 sekúndur.

FH – ÍR einvígi í 400 metra hlaupinu

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR mun keppa í 100 og 400 metra hlaupi. Hún er í algjörum sérflokki í 100 metra hlaupinu á morgun ætti því að taka gullið nokkuð örugglega. En í 400 metra hlaupinu mun hún þurfa að kljást við Þórdísi Evu Steinsdóttur úr FH. Þær kepptu báðar fyrir hönd Íslands á EM U20 út í Svíþjóð í síðustu viku en á morgun munu þær mætast í sitthvoru liðinu. Báðar munu gera sitt allra besta og því ættu úrslitin ekki að ráðast fyrr en á lokametrunum.

Í 400 metra hlaupi karla mun ÍR og FH einnig líklegast heyja mikla baráttu. Besta árangurinn í ár á Hinrik Snær Steinsson, FH en á fyrir ÍR hleypur Ívar Kristinn Jasonarson sem á betra persónulegt met. Því gæti hlaupið á morgun farið á alla vegu.

Í 100 metra hlaupi karla verður spennandi að fylgjast með Jóhanni Birni Sigurbjörnssyni, UMSS/KFA og Kolbeini Heði Gunnarssyni, FH. Þeir mættust fyrir viku síðan þar sem Jóhann Björn hafði betur en Kolbeinn á samt sem áður betri tíma í ár í löglegum aðstæðum.

Allt undir í boðhlaupinu

Fyrrum Íslandsmethafi í sleggjukasti, Vigdís Jónsdóttir úr FH er líklegust til þess að hreppa gullið á morgun. Hún hefur margoft bætt Íslandsmetið síðustu fimm ár en í vor bætti Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR, Íslandsmet hennar. Vigdís bætti sitt persónulega met í gær og spurning hvort hún muni gera atlögu að Íslandsmeti Elísabetar á morgun. Fleiri sterkir kastarar munu keppa á morgun en í kringlukasti þá mætast Guðni Valur Guðnason, ÍR og Valdimar Hjalti Erlendsson, FH. Og í kúluvarpi þá mætir til leiks nýbakaður bronsverðlaunhafi frá EM U20, Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR.

Í langstökki á Irma Gunnarsdóttir, Breiðablik bestan árangur keppenda í ár og í 100 metra grindarhlaupi er það María Rún Gunnlaugsdóttir, FH. Í 1500 metra hlaupi þá eru ÍR-ingar sigrustranglegir bæði í karla- og kvennaflokki með Sæmund Ólafsson og Andreu Kolbeinsdóttur innanborðs.

Hápunktur mótsins er oftar en ekki 1000 metra boðhlaupið. Það er seinasta grein dagsins og fyrir hana er yfirleitt allt í járnum. En er ekki ljóst hvaða lið ber sigur úr býtum og því er mikilvægt að gera ekki mistök. Persónuleg met skipta oft ekki öllu máli heldur þurfa keppendur að vera ískaldir og geta þolað pressuna þegar mikið er undir. Miklar sviptingar geta orðið í miðju hlaupi og er þessi grein því mikil skemmtun fyrir áhorfendur.

Hér má sjá tímaseðil og keppendalista fyrir mótið