52. Bikarkeppni FRÍ á laugardaginn

Laugardaginn 28. júlí fer fram 52. bikarkeppni FRÍ. Keppnin fer fram í Borgarnesi, byrjar klukkan tólf og er lokið klukkan þrjú. Sjö lið eru skráð til leiks í karlaflokki og níu lið í kvennaflokki. Félögin sem senda inn lið eru Breiðablik, UMSS, FH, ÍR, KFA, HSK og svo sameiginlegt lið Fjölnis og Aftureldingar. Í kvennaflokki senda FH og ÍR inn tvö lið.

Búast má við mjög spennandi keppni þar sem líklegast er að FH og ÍR muni berjast um bikarinn. Í fyrra sigraði FH kvennakeppnina en ÍR sigraði karlakeppnina og samanlögðu keppnina með aðeins einu stigi.

Fremsta frjálsíþróttafólk landsins er samankomið og margir nýkrýndir Íslandsmeistarar frá því um þar síðustu helgi munu berjast um fyrsta sætið og reyna að krækja í sem flest stig fyrir félagið sitt. Aðeins er einn keppandi frá hverju félagi er í hverri grein og er mótið því stutt, skemmtilegt og spennandi.

Mótið hefst á sleggjukasti karla þar sem Vilhjálmur Árni Garðarsson úr FH er sigurstranglegastur. Þar næst er það 110 metra grindarhlaup karla þar sem ríkjandi Íslandsmeistari í greininni Ísak Óli Traustason, UMSS, er meðal keppenda. Í spjótkasti kvenna má búast við hörku keppni milli Maríu Rúnar Gunnlaugsdóttir, FH, og Irmu Gunnarsdóttur, Breiðablik. Í þrístökki kvenna gæti ÍR-ingar tekið tvö efstu sætin þar sem Hildigunnur Þórarinsdóttir keppir fyrir ÍR-A og Vilborg María Loftsdóttir fyrir ÍR-B. Í stangarstökki karla er Ingi Rúnar Kristinsson, Breiðablik, sigurstranglegastur. Í 100 metra grindarhlaupi kvenna má búast við spennandi keppni milli Guðrúnar Dóru Sveinbjarnardóttur, FH, og Fjólu Signýjar Hannesdóttur, HSK. Í 100 metra hlaupi karla verða allir þrír verðlaunahafar frá því á MÍ meðal keppenda. Íslandsmeistarinn Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS, er þar líklegastur til sigurs. Fyrir ÍR-inga hleypur Tiana Ósk Whitworth í 100 metra hlaupi kvenna og er sigurstranglegust. Í 400 metra hlaupi er Ívar Kristinn Jasonarson, ÍR og Þórdís Eva Steinsdóttir, FH, sigurstranglegust. Í langstökki karla má búast við harðri baráttu milli Kristins Torfasonar, FH og Þorsteins Ingvarssonar, ÍR. Í hástökki kvenna gæti María Rún, FH, Eva María Baldursdóttir, HSK og Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir, UMSS allar stolið sigrinum. Í kúluvarpi karla og kringlukasti kvenna eru ÍR-ingarnir og kringlukastarnir Guðni Valur Guðnason og Thelma Lind Kristjándóttir líklegust til sigurs. Í 1500 metra hlaupi karla má búast við baráttu fram til síðasta metra milli Kristins Þór Kristinssonar, HSK, Sæmundar Ólafssonar, ÍR, og Bjartmars Örnusonar, KFA. Í 1500 metra hlaupi kvenna má búast við keppni milli Maríu Birkisdóttir, FH og Andreu Kolbeinsdóttur, ÍR.

Mótinu lýkur svo með 1000 metra boðhlaupi. Þar er spennan mikil og úrslitin ráðast yfirleitt í því hlaupi. Þar er ÍR og FH með sterkar sveitir sem báðar gætu sigrað boðhlaupið og þar með keppnina í heild sinni.

Við hvetjum alla til að gera sér ferð til Borgarness og fylgjast með þessu spennandi móti sem beðið er eftir með eftirvæntingu ár hvert.

Hér að neðan má nálgast leikskrá mótsins.

LeikskraBikarkeppniFRI2018FimmtudagskvoldppniFRI2018