30 ár frá Íslandsmeti Péturs

Í dag, 10. nóvember, eru slétt 30 ár frá því að Pétur Guðmundsson bætti Íslandsmetið í kúluvarpi utanhúss. Enn sem komið er hefur engum tekist að bæta metið. Íslandsmet Péturs er 21,26 metrar og setti hann það á frjálsíþróttavellinum í Mosfellsbæ. Gamla metið var 21,09 metrar og átti Hreinn Halldórsson það sem margir þekkja sem Strandamanninn sterka.

Ekki hafa margir ógnað meti Péturs en Óðinn Björn Þorsteinsson hefur komist næst því þegar hann kastaði 19,83 metra árið 2011. Pétur á einnig Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss og er einungis vika frá því að það varð 30 ára. Það met setti Pétur í Reiðhöllinni 3. nóvember 1990 þegar hann kastaði 20,66 metra.

Pétur var á sínum tíma með fremstu kúluvörpurum í heiminum og var Íslandsmet hans utanhúss besti árangur Norðulandabúa og fimmta lengsta kast ársins 1990. Lengsta kastið átti Bandaríkjamaðurinn Randy Barnes ssem kastaði 23,12 metra.