Þann 25. september árið 2000 vann Vala Flosadóttir til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Sydney. Síðan eru liðin 23 ár. Hún er fyrsta og eina íslenska konan sem unnið hefur til verðlauna á Ólympíuleikum, auk þess var hún þriðji Íslendingurinn. Seinna sama ár var hún kosin íþróttamaður ársins á Íslandi.
Stökk hennar var 4,50m en með þessu stökki bætti hún eigin árangur um 14 sentimetra og setti bæði Íslands- og Norðurlandamet. Hún stökk aðeins 10 sentimetrum lægra en sú sem var í fyrsta sæti og 5 sentímetrum lægra en sú sem var í öðru sæti og leiddi keppnina framan af.
Glæsilegur árangur Völu á árunum 1996 – 1999
1996: Fyrsti Evrópumeistari sögunnar í stangarstökki kvenna á EM innanhúss
1997: Annað sæti á evrópska unglingameistaramótinu
1998: Þriðja sæti á EM. Sama ár setti hún tvívegis heimsmet í stangarstökki kvenna innanhúss
1999: Evrópumeistari 22 ára og yngri og annað sæti á HM innanhúss