13. Bikarkeppni FRÍ innanhúss

Á morgun, laugardaginn 2. mars fer fram 13. bikarkeppni FRÍ innanhúss. Keppnin fer fram í Kaplakrika, fyrsta grein hefst 11:30 og sú seinasta fer af stað klukkan 13:50. Átta lið eru skráð til keppni í karlaflokki og níu lið í kvennaflokki. Félögin sem senda inn lið eru Breiðablik, FH, ÍR, HSK, Katla, Ármann, UMSS og svo sameiginlegt lið Fjölnis og Aftureldingar. FH og ÍR senda inn tvö lið.

Búast má við mjög spennandi keppni þar sem líklegast er að FH og ÍR muni berjast um bikarinn. Í fyrra sigraði FH karlakeppnina en ÍR sigraði kvennakeppnina. Í heildarstigakeppninni varð FH og ÍR jöfn að stigum en ÍR sigraði með fleiri gullverðlaun.

Fremsta frjálsíþróttafólk landsins er samankomið og margir nýkrýndir Íslandsmeistarar frá síðustu helgi munu berjast um fyrsta sætið og reyna að krækja í sem flest stig fyrir félagið sitt. Aðeins er einn keppandi frá hverju félagi er í hverri grein og er mótið því stutt, skemmtilegt og spennandi.

Mótið hefst á stangarstökki karla þar sem Íslandsmeistarinn frá síðustu helgi, Mark Wesly Johnson úr ÍR, er líklegastur til sigurs. Á sama tíma hefst 60 metra grindarhlaup kvenna. Þar á meðal keppenda er María Rún Gunnlaugsdóttir, FH sem sigraði í greininni á Meistaramótinu um síðustu helgi. Í þrístökki kvenna má búast við spennandi keppni milli Hildigunnar Þórarinsdóttur, ÍR og Öglu Maríu Kristjánsdóttur, Breiðabliki. Hildigunnur á þó betri árangur. Í 60 metra grindarhlaupi karla verður spennandi að fylgjast með Ísak Óla Traustasyni, UMSS sem hefur verið í miklu bætingarformi undanfarnar vikur. Í kúluvarpi kvenna teflir FH fram Britnay Emilie Folrrianne Cots sem leikur með handboltaliði félagsins en er einnig góður kúluvarpari og kastaði hún 13,70 metra á Meistaramótinu um síðustu helgi. Í 60 metra hlaupi kvenna má búast við sigri frá Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur, ÍR og í karlaflokki mætir Ari Bragi Kárason, FH aftur í blokkina og hleypur gegn Juan Ramon Borges, Breiðabliki sem er nýkrýndur Íslandsmeistari. Í 1500 metra hlaupi eiga ÍR-ingarnir Aníta Hinriksdóttir og Sæmundur Ólafsson bestu tímana. Í hástökki kvenna mætast þrjár efstu frá Meistaramótinu aftur, María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, Kristín Lív Svabo Jónsdóttir, ÍR og Helga Þóra Sigurjónsdóttir, Fjölni. Í langstökki karla eru Kristinn Torfason, FH og Þorsteinn Ingvarsson, ÍR líklegastir til sigurs. Í 400 metra hlaupi koma FH-ingarnir Þórdís Eva Steinsdóttir og Kormákur Ari Hafliðason sterklega til greina sem bikarmeistarar en ÍR-ingarnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Ívar Kristinn Jasonarson munu klárlega ekki gefa neitt eftir í þeirri baráttu. Í kúluvarpi karla tekur Ólympíufarinn Óðinn Björn Þorsteinsson, ÍR, skónna úr hillunni og á hann bestan árangur keppenda.

Seinasta grein mótsins eru 4×200 metra boðhlaup þar sem úrslitin eru algjörlega óráðin. Í boðhlaupinu er spennan yfirleitt mikil og fyrir hlaupið er stigakeppnin yfirleitt í járnum. Því er mikið undir og sigur þar gæti þýtt sigur í stigakeppninni. Við hvetjum alla til þess að gera sér ferð í Kaplakrika og fylgjast með mótinu.

Keppendalista og dagskrá mótsins má sjá hér.