12. Bikarkeppni FRÍ um helgina

12. Bikarkeppni FRÍ fer fram laugardaginn 10. mars nk. Sjö lið eru skráð til keppni í kvennaflokki en átt lið keppa í karlaflokki. Um hörkukeppni verður að ræða og má búast við harðri baráttu.

Keppni hefst á 60 m grindahlaupi kvenna og má búast við hörkukeppni milli Maríu Rúnar Gunnlaugsdóttur FH og Irmu Gunnarsdóttur Breiðabliki.

Hulda Þorsteinsdóttir ÍR er skráð til leiks í stangarstökk kvenna og hún talin sigurstranglegust.

Kristinn Torfason FH og Þorsteinn Ingvarsson ÍR munu berjast um sigurinn í þrístökki karla. Bjarki Rúnar Kristinsson Breiðabliki er hinsvegar í bætingaformi og verður mjög spennandi að sjá hvaða árangri hann mun ná.

Búast má við jafnri og spennandi keppni í 60 m grindahlaupi karla. Þar er Ísak Óli Traustason UMSS sigurstranglegastur en hann bætti sinn besta árangur á MÍ í lok febrúar þegar hann hljóp á tímanum 8,26 sek. Einar Daði Lárusson ÍR er hinsvegar í mjög góðu formi þessa dagana og hefur hlaupið á 8,36 sek á tímabilinu.

Erna Sóley Gunnarsdóttir ÍR hefur náð besta árangri keppenda í kúluvarpi en hún hefur varpað kúlunni 14,16 m í ár. Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki er með næstbesta árangur keppenda, 13,22 m.

Í 60 m hlaupi kvenna má búast við æsispennandi keppni en fjórar af sjö keppendum þar hafa hlaupið undir 8 sekúndum á tímabilinu. Tiana Ósk Whitworth ÍR er sigurstranglegust en hún á best 7,47 sek frá því á Stórmóti ÍR í lok janúar og er það núverandi Íslandsmet í greininni. Í 60 m hlaupi karla eru þeir Jóhann Björn Sigurbjörnsson UMSS og Dagur Andri Einarsson FH sigurstranglegastir en þeir hafa báðir hlaupið undir 7 sekúndum á þessu tímabili.

Hlaupastjarnan Aníta Hinriksdóttir kepptir í 1500 m hlaupi fyrir ÍR-inga. Aníta setti glæsilegt nýtt Íslandsmet í greininni í síðasta mánuði og verður spennandi að sjá hvaða árangri hún nær í hlaupinu um helgina.

Búast má við hörkuspennandi keppni í 1500 m hlaupi karla og er langt síðan svo margir góðir hlauparar keppa í sama hlaupinu. Trausti Þór Þorsteins Ármanni sem á besta árangur ársins í 800 m hlaupi er skráður til leiks og er gríðarlega spennandi að sjá hvaða árangri hann nær um helgina. Þá mun Íslandsmeistarinn í greininni Sæmundur Ólafsson ÍR einnig keppa í hlaupinu ásamt Íslandsmeistaranum frá því í fyrra, Bjartmari Örnusyni KFA. Fremsti millivegalengdahlaupari síðustu ára, Kristinn Þór Kristinsson HSK, er einnig skráður ásamt silfurverðlaunahafanum frá MÍ og RIG, Huga Harðarssyni Fjöleldingu, sem er í bætingaformi. Þá hleypur Þórarinn Örn Þrándarsson fyrir FH-inga en hann er að koma sterkur til baka eftir nokkurt hlé.

Sjöþrautarkonan María Rún Gunnlaugsdóttir FH keppir í langstökki og á hún besta árangur keppenda, en hún hefur stokkið 5,91 á tímabilinu. Þær Birna Kristín Kristjánsdóttir Breiðabliki og Guðrún Heiða Bjarnadóttir HSK koma næstar á eftir henni, en þær hafa báðar stokkið 5,77 m á tímabilinu.

Í hástökki karla er hinn ungi og efnilegi Kristján Viggó Sigfinnsson Ármanni sigurstranglegastur en hann hefur stokkið 2,01 m á tímabilinu. Óðinn Björn Þorsteinsson ÍR verður að teljast líklegur til sigurs í kúluvarpi karla en hann á best 20,22 m.

Hlaupadrottningin Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH er skráð til leiks í 400 m hlaupi kvenna og hefur verið ósigrandi á tímabilinu og Ívar Kristinn Jasonarson ÍR og Kormákur Ari Hafliðason FH munu berjast um sigur í 400 m hlaupi karla.

Í 4×200 m boðhlaupum karla og kvenna er allt opið en eitt er víst, þar verður allt lagt undir.

Keppni hefst kl. 13:00 og lýkur um kl. 15:30.

Frjálsíþróttasamband Íslands hvetur alla frjálsíþróttaunnendur til þess að mæta í Kaplakrika um helgina og hvetja keppendur áfram!