Vilhjálmur Einarsson, silfurverðlaunahafi í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956, er áttatíu og fimm ára í dag.
Vilhjálmur Einarsson vann fyrstur Íslendinga til verðlauna á Ólympíuleikum árið 1956 þegar leikarnir voru haldnir í Melbourne í Ástralíu. Vilhjálmur, sem þá var 22 ára gamall, setti Ólympíumet í öðru stökki sínu þegar hann sveif 16,26 metra.
Þar með náði hann forystunni í stökkkeppninni og hélt henni í tvo klukkutíma, eða þar til Adhemar Da Silva, 29 ára gamall Brasilíumaður og heimsmethafi í greininni stökk 16,35 metra í sinni fjórðu tilraun og náði gullverðlaununum og Ólympíumetinu af Vilhjálmi.
Vilhjálmur varð í þriðja sæti á Evrópumeistaramóti í Stokkhólmi árið 1958 og var það næst besti árangur Norðurlandabúa frá upphafi. Á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960 keppti Vilhjálmur bæði í langstökki og þrístökki. Hann keppti samt bara í langstökki til að prófa brautina, stökk aðeins tvö stökk og voru þau mæld 6,64 m og 6,76 m. Í þrístökkinu stökk hann lengst 16,37 og lenti í fimmta sæti. Vilhjálmur varð í sjötta sæti á Evrópumeistaramótinu í Belgrad í Júgóslavíu árið 1962 og hætti að keppa eftir það. Vilhjálmur keppti á fjölda annarra móta en þessi fjögur stórmót standa upp úr.
Vilhjálmur er eini íslenski einstaklingurinn sem hefur náð öðru sæti í einstaklingskeppni á Ólympíuleikum.
Frálsíþróttasamband Íslands óskar Silfurmanninum Vilhjálmi Einarssyni innilega til hamingju með daginn.
