Vetter og Stefanidi valin frjálsíþróttafólk Evrópu 2017

Golden Tracks verðlaunaafhengdingin fór fram í Vilníus í Litháen á laugardaginn.

Johannes Vetter frá Þýskalandi og Aikaterini Stefanidi frá Grikklandi voru útnefnd frjálsíþróttafólk Evrópu 2017.

Spjótkastarinn Johannes Vetter er aðeins 24 ára en hefur háð frábærum árangri á sínum ferli. Hann náði næstbesta árangri sögunnar er hann kastaði spjótinu 94,44 m á Spitzenleichtathletik mótinu í Lucerne í Sviss í júlí sl. Vetter varð Heimsmeistari í London í ágúst er hann kastaði 89,89 m í fyrsta kasti.

Stangastökkvarinn Aikaterini Stefanidi hefur átt stórkostlegt ár. Hún stimplaði sig inn sem einn besti stangastökkvari heims þegar hún varð Evrópumeistari innanhúss í Belgrad í mars á þessu ári. Stefanidi sigraði keppnina með 10 cm er hún stökk yfir 4,85 m. Þá varð hún Heimsmeistari utanhúss er hún stökk yfir 4,91 m á Heimsmeistaramótinu í London í ágúst. Setti hún um leið grískt met og náði besta árangri ársins í stangarstökki kvenna.

400 m grindahlauparinn Karsten Warholm frá Noregi og hástökkvarinn Yuliia Levchenko frá Úkraínu voru útnefnd rísandi frjálsíþróttastörnur Evrópu. Warholm varð Heimsmeistari í 400 m grindahlaupi í London í sumar og Levchenko varð Evrópumeistari innanhúss, Evrópumeistari U23 ára og hafnaði í 2. sæti á Heimsmeistaramótinu í London.

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, var viðstaddur athöfnina fyrir hönd FRÍ.

Freyr ásamt Sebastian Coe, Aikaterini Stefanidi og þjálfara hennar.

 

Freyr ásamt Karsten Warholm og kærustu hans.

Share on FacebookShare on Google+Tweet about this on TwitterShare on LinkedIn