Vel heppnaður Kringlusprettur

 Alls tóku sjö karlmenn og fimm konur þátt og náðu þau Ari Bragi Kárason úr FH og Hafdís Sigurðardóttir úr UFA bestu tímunum.  Ari Bragi kom í mark á tímanum 7,02 s og Hafdís á 7,86 s.  Þorsteinn Ingvarsson úr ÍR og Juan Ramon Borges Bosque voru hnífjafnir þar á eftir á tímanum 7,11 s.  Hörkukeppni var einnig milli næstu manna þar á eftir.  Þeir Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA, Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS, Einar Daði Lárusson úr ÍR og Tristan Freyr Jónsson úr ÍR komu í mark á tímunum 7,20 s, 7,23 s, 7,25 s og 7,26 s.  
 
Konurnar sem röðurðu sér í 2. og 3. sæti voru einnig hnífjafnar en þær Tiana Ósk Whitworth úr ÍR og Þórdís Eva Steinsdóttir komu nánast jafnar í mark, Tiana Ósk á tímanum 8,01 s og Þórdís Eva á tímanum 8,03 s.  Gestirnir og sannkölluð leynivopnin, þær Guðbjörg Bjarkadóttir úr FH og Hjördís Ósk Óskarsdóttir frá Crossfit stöðinni komu í mark á 8,16 s og 8,26 s  en þetta var fyrsta 60 m hlaup Hjördísar.
 
Nokkrir frægir einstaklingar spreyttu sig í 60 m hlaupinu í gær.  Alþingismaðurinn og frjálsíþróttamaðurinn Haraldur Einarsson kom skiljanlega fyrstur í mark.  Tími hans var 7,33 s.  Þau Evert Víglundsson, Dýri Kristjánsson, Felix Bergsson og Margrét Gnarr stóðu sinn einnig með mikili prýði.  Ekki má gleyma Adolfi Inga sem stóð sig frábærlega í að kynna keppendur og halda áhorfendum upplýstum um gang mála.
 
Að lokum voru hlaupabrautirnar opnar fyrir almenningi og var alls 21 aðili sem spreyttu sig.  Skemmtu allir sér mjög vel.
 
Kringluspretturinn var fjáröflunarviðburður fyrir Boðhlaupshópinn og renna peningarnir sem söfnuðust, alls um 150 þúsund krónur, í að fjármagna sameiginlegar boðhlaupsæfingar fyrir Smáþjóðaleikana og Evrópukeppnina næstkomandi sumar.  Markmið hópsins er að komast með boðhlaupssveit á Evrópumeistaramótið í Amsterdam 2016.  Árangur liðsins á þessum tveimur mótum í sumar skiptir gríðarlegu máli vegna þess að samanlagður besti árangur sveitarinnar árið 2015 og svo 2016 gildir við röðun landsliðanna inn á mótið.  Síðan fá þau lönd sem eru með 16 bestu tímana fyrir EM boð um þátttöku.
 
Boðhlaupshópurinn þakkar öllum stuðningsaðilum Kringlusprettsins fyrir þeirra framlag og þá sérstaklega Lindex sem var aðal styrktaraðili viðburðarins.

FRÍ Author