Úrvals- og afrekshópar unglinga valdir – Æfingabúðir um helgina

Í úrvalshóp Unglinga FRÍ eru 109 einstaklingar á aldrinum 15-22 ára og hafa þau verið valin eftir árangri frá s.l sumri og fram til dagsins í dag. Í Afrekshóp eru 11 einstaklingar einnig á aldrinum 15-22 ára sem náð hafa þeim árangri sem telst Elítan og er það toppurinn sem við eigum í dag í frjálsíþróttum unglinga. Krakkarnir koma víðs vegar af landinu og er virkilega gaman að sjá að landsbyggðin hefur að geyma efnilega krakka í frjálsíþróttum.
 
Í ár má sjá mörg ný andlit í Úrvalshópi unglinga sem er frábært en til þess að vera valinn í Úrvalshóp unglinga þá er farið eftir ákveðnum viðmiðum sem segir til um góðan árangur sem veitir inngöngu í Úrvalshópinn. Á hverju ári er farið yfir árangur allra og kemur þá oftast í ljós hverjir haldast í hópnum og hverjir komast nýjir inn. En einnig verða viðmiðin mun erfiðari því sem unglingarnir eldast svo það kostar mikla æfingu að halda sig í hópnum.
Með hvatningu og ákveðni er alltaf von um að komast aftur í hópinn og er það sem ég vonast svo sannarlega eftir að allir gera. Markmið Úrvalshóps og Afrekshóps er að koma saman nokkrum sinnum á ári í æfingabúðum,
fá leiðbeiningu í sínum greinum og stuðning frá frjálsíþróttafélögum sínum sem þau kynnast í slíkum æfingabúðum. Allt er þetta gert til að auka möguleika þeirra að ná betri árangri sem gefur þeim von um að komast á stórmót erlendis en eru þau mót nokkur á hverju sumri.
 
Næstu æfingabúðir hjá Úrvals og Afrekshópi er um komandi helgi en þar sem er tiltölulega langt síðan að síðustu æfingabúðir voru haldnar þá verða þessar búðir einnig notaðar til þess að ná hópnum saman en hópurinn ætlar að gera margt skemmtilegt, ásamt því að fara út úr bænum og gista saman eina nótt. Vonumst við til þess að þessi nýjung heppnist vel.
Aftur á móti ef það er einhver sem hefur verið valinn í hópinn en hefur af einhverri ástæðu ekki fengið póst um það og boðsmiða um komandi helgi í æfingabúðir þá vinsamlegast hafa samband við undirritaða.
 
Karen Inga Ólafsdóttir
Unglingalandsliðsþjálfari FRÍ
 

FRÍ Author